141. löggjafarþing — 104. fundur,  15. mars 2013.

opinberir háskólar.

319. mál
[18:55]
Horfa

Lilja Mósesdóttir (U) (andsvar):

Virðulegi forseti. Það er mjög mikilvægt að halda því til haga í umræðunni að það er miklu frekar merki um margbreytileika en gæði að nefna háskólana ólíkum nöfnum.

Hv. þingmaður talaði um nauðsyn þess að sameina háskóla. Ég velti því mér hvort hann hafi einhverjar hugmyndir um hvaða háskóla eigi að sameina og á hvaða forsendum, vegna þess að í umræðunni er oft talað um að sameina þurfi háskólana úti á landi. Kannski er ástæðan fyrir því sú að ekki er talið mögulegt að halda uppi háskólastarfsemi í svona fámennum byggðum eins og sumir háskólarnir búa við úti á landi. En þá má ekki gleyma því að þessir háskólar hafa verið gífurleg lyftistöng fyrir atvinnulífið á staðnum. Ég man eftir því að talað var um að fyrir hvert háskólastarf við Háskólann á Akureyri sköpuðust þrjú til fimm önnur störf í kringum þá starfsemi, auk þess sem háskóli sem staðsettur er úti á landi gerir það að verkum að fólk er tilbúið til að flytjast á svæðið og búa þar lengur.

Ég tel að það sé mjög mikilvægt að taka það með í reikninginn þegar við metum hvaða háskóla þarf að sameina og jafnvel að leggja niður að einhverju leyti vegna þess að við erum með of marga háskóla í landinu. Og þar sem hv. þingmaður hefur starfað við tvo háskóla í Reykjavík, sem eru ólíkir hvað varðar rekstrarform, þætti mér fovitnilegt að vita hvort hann sé þeirrar skoðunar að sameina eigi þessa skóla eða hvort mikilvægt sé að hafa þá í samkeppni.