141. löggjafarþing — 106. fundur,  18. mars 2013.

Reykjavíkurflugvöllur.

[10:02]
Horfa

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson (F):

Virðulegur forseti. Fyrir fáeinum dögum var upplýst um að hæstv. fjármálaráðherra, varaformaður Samfylkingarinnar, hefði selt fyrrverandi varaformanni Samfylkingarinnar, Degi B. Eggertssyni, sem fulltrúa Reykjavíkurborgar hluta af landi ríkisins í Vatnsmýri. Að hluta liggur þetta land undir núverandi flugvelli. Gert er ráð fyrir því samkvæmt þessum samningi að byggt verði á landinu þegar þriðja flugbrautin, svokölluð suðvestur/norðausturflugbraut Reykjavíkurflugvallar hafi verið lögð af. En eftir því sem ég kemst næst hefur ekki verið tekin formleg ákvörðun um að leggja þá flugbraut af.

Nú spyr ég hæstv. innanríkisráðherra: Hyggst hann taka slíka ákvörðun? Er hann hlynntur því að þriðja flugbrautin á Reykjavíkurflugvelli verði aflögð? Þykir hæstv. ráðherra eðlilegt að ríkið selji land sitt undir hluta flugvallarins án þess að tekin hafi verið ákvörðun um að afleggja þriðju flugbrautina og geri það á þeim forsendum að flugbrautin fari? Ég minni á að þriðja flugbrautin var ekki lögð að ástæðulausu, hún gegnir meðal annars ákveðnu öryggishlutverki. Það að leggja hana niður felur væntanlega í sér að menn þurfi að gera einhverjar ráðstafanir til að bæta öryggismálin sem nemur því sem breytist við að fækka flugbrautunum og ég veit svo sem ekki hvort hægt er að gera það. En það er ástæða fyrir því að þessi flugbraut er til staðar og ég hefði talið æskilegt að meðan flugvöllurinn er í Vatnsmýrinni væri hann þá sem öruggastur og sem best til þess fallinn að gegna hlutverki sínu. Jafnframt tel ég óæskilegt að ríkið sé að taka þátt í einhvers konar þrýstingi um að reyna smátt og smátt að þoka flugvellinum í burtu með því að byggja alveg upp að honum.