141. löggjafarþing — 106. fundur,  18. mars 2013.

sala á landi Reykjavíkurflugvallar.

[10:24]
Horfa

innanríkisráðherra (Ögmundur Jónasson) (Vg):

Hæstv. forseti. Það oft svo að skrifað er undir samninga með fyrirvara, það er algengt að slíkt sé gert. Þó að ég gagnrýndi þennan forgangsmáta var það sameiginlegur vilji allra þessara ráðuneyta að við reyndum að ná samkomulagi um þann þátt sem samið var um. Það hafði verið lengi á vinnsluborðinu og að sjálfsögðu með okkar vitneskju og vilja.

Hv. þingmaður nefnir þá þætti sem máli skipta í þessu samhengi, þ.e. framtíð flugvallarins, vegna þess að það er vilji samgönguráðuneytisins og flugrekstraraðila Isavia, sem fer með eignarhald á flugvöllunum og yfirráð yfir þeim, að reisa nýjan flugstöð í Skerjafirði. Það sem breyttist frá árinu 2010 og fram á þennan dag var að við féllumst á þau sjónarmið borgarinnar að hætta við (Forseti hringir.) samgöngumiðstöð í Öskjuhlíðinni og reisa þess í stað flugmiðstöð í Skerjafirðinum. En áður en ráðist er í slíka framkvæmd vilja menn vita hvað blasir við á komandi árum.