141. löggjafarþing — 106. fundur,  18. mars 2013.

skýrsla fjármálaráðherra um hagvöxt og dagskrá fundarins.

[10:46]
Horfa

Birgitta Jónsdóttir (Hr):

Forseti. Það er greinilegt að haldinn hefur verið þingflokksformannafundur með forseta og þingflokksformönnum meiri hlutans um að sýna fram á — (Gripið fram í: Ert þú ekki í honum?) Ég er greinilega ekki í honum, ég er ekki neinna nema sjálfrar mín og þingmanna Hreyfingarinnar. Gott og vel, það er fínt að sjá á plaggi hvaða mál ríkisstjórnin leggur áherslu á að klára, þar á meðal Happdrættisstofu sem er greinilega þjóðþrifamál.

Mig langar að spyrja forseta hvort við getum ekki fundað. Síðan langar mig að fara fram á að ný þingsköp verði kláruð og að við setjum frumvarp til nýrra stjórnarskipunarlaga á dagskrá fyrst við ætlum að flagga öllu því besta sem ríkisstjórnin býður upp á.