141. löggjafarþing — 106. fundur,  18. mars 2013.

um fundarstjórn.

[12:06]
Horfa

Birgir Ármannsson (S):

Hæstv. forseti. Hér hefur verið bent á að fram sé komin breytingartillaga um auðlindaákvæðið sem er borin fram sem breytingartillaga við frumvarp um breytingarákvæði. Þetta er mjög sérkennilegt, þetta er breytingarákvæði sem þar að auki er bráðabirgðabreytingarákvæði. Á sama tíma ræðum við svo aðra breytingartillögu sem felur í sér að ný stjórnarskrá verði afgreidd sem breytingartillaga.

Þetta er alveg út í hött, hæstv. forseti. Það væri eðlilegt eins og ég nefndi áðan að menn settust aðeins niður og veltu fyrir sér hvort það væri einhver flötur á því að koma þessari umræðu í skynsamlegri farveg.

Ég er þeirrar skoðunar, eins og hv. þingmenn þekkja, að tíminn til stjórnarskrárbreytinga á þessu kjörtímabili sé raunverulega löngu liðinn. Mér finnst atburðarásin núna, málsmeðferðin eins og þetta er þegar verið er að koma með breytingartillögur á síðustu stundu, (Forseti hringir.) sýna og sanna í hvers konar ógöngum þetta mál er. (Forseti hringir.) Menn er búnir að keyra út í skurð og komast ekki upp (Forseti hringir.) úr honum með svona aðferðum.