141. löggjafarþing — 106. fundur,  18. mars 2013.

stjórnarskipunarlög.

641. mál
[15:21]
Horfa

Lúðvík Geirsson (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Í beinu framhaldi af þessu má spyrja — það kom fram í ræðu hv. þingmanns að afgerandi niðurstaða og vilji hefði endurspeglast í spurningunni um þjóðareign á auðlindum — hvort þingmaðurinn telji að við sem sitjum á Alþingi, og höfum þetta mál til umfjöllunar, séum að engu leyti bundin af þeirri niðurstöðu og eigum ekkert að gera með það. Ég skildi orð þingmannsins í ræðunni hér á undan í þá veru að hann vildi mjög leita eftir því að samstaða næðist um þetta auðlindaákvæði.

Ég get hins vegar á engan hátt greint hvar ágreiningurinn væri út frá þeirri tillögu sem meiri hluti stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar lagði fram og liggur fyrir í breytingartillögu í þessari umræðu. Er verið að togast á um skilgreiningar á þjóðareign? Er verið að togast á um gjaldtökuna, fullt, eðlilegt eða sanngjarnt gjald? Eða eru það kannski nýtingarleyfin og óbein eignarréttindi sem margir telja að eigi að fylgja slíkum réttindum? Það væri fróðlegt að fá að heyra viðbrögð þingmannsins við þessu.