141. löggjafarþing — 106. fundur,  18. mars 2013.

stjórnarskipunarlög.

641. mál
[18:26]
Horfa

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson (F) (andsvar):

Virðulegur forseti. Hv. þm. Árni Páll Árnason, formaður Samfylkingarinnar, hélt því fram að hann og félagar hans hefðu lagt fram þá tillögu sem við ræðum hér til að losa um pattstöðu sem upp hafi verið komin. Raunin var miklu frekar sú að málið var einfaldlega fallið á tíma og ekki meiri hluti fyrir því. Gerðar höfðu verið fjölmargar alvarlegar athugasemdir við málið og greinilega ekki verið svigrúm til þess að bregðast við þeim þannig að málið féll á tíma. Ekki vegna málþófs vegna þess að það hefur ekkert málþóf verið um þessa stjórnarskrártillögu. Hún hefur varla verið rædd í því formi sem hún er í núna, sem sagt heildartillagan sem verið er að bregðast við hér, svo að það er varla skýringin.

Þegar hv. þingmaður segist vera tilbúinn í opið og fordómalaust samtal þá hafa dæmin því miður sýnt að félagar hans, margir hverjir, virðast ekki vera tilbúnir í slíkt. Menn hafa nefnt hér þegar við framsóknarmenn lögðum fram tillögu um auðlindaákvæði, tillögu sem var unnin af mörgum af helstu leiðtogum vinstri manna á (Forseti hringir.) undanförnum árum, en engu að síður sáu menn ástæðu til að snúa því algjörlega á haus, þar með talið hæstv. innanríkisráðherra sem fór hér með algjört (Forseti hringir.) fleipur, sneri málum á haus og bullaði bara. Er þetta uppbyggileg (Forseti hringir.) nálgun á það þegar menn leggja fram hugmyndir?