141. löggjafarþing — 106. fundur,  18. mars 2013.

stjórnarskipunarlög.

641. mál
[20:14]
Horfa

Pétur H. Blöndal (S) (andsvar):

Frú forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir ágæta umfjöllun. Hún var reyndar dálítið löng sem er dálítið merkilegt því að þinginu átti að ljúka á föstudaginn var og ég hélt að við værum alla vega að reyna að klára. Það kemur mér því mjög á óvart að þingflokksformenn Vinstri grænna og Samfylkingar skuli flytja frumvarp til breytingar á frumvarpi formanna Vinstri grænna og Samfylkingar. Ég hélt að þetta væri sami flokkurinn og menn væru samstiga en svo er ekki.

Ég tek því undir það með hv. þm. Magnúsi Orra Schram í dagblöðunum að tillaga Margrétar Tryggvadóttur hafi verið einskonar tundurskeyti inn í dæmið. Mér finnst þessi tillaga vera nokkurs konar djúpsprengja og hún er ekki til bóta í því að ná sáttum um tillögu formanna flokkanna. Ég vil spyrja hv. þingmann hvernig standi á því ferli. Er ekki samstaða innan Samfylkingarinnar, sem hv. þingmaður þekkir, um málið? Hvernig stendur á því að þingflokksformaðurinn kemur með breytingartillögu við tillögu formannsins? Af hverju stóð hann ekki með henni á tillögunni eða eitthvað slíkt?

Svo vil ég spyrja um ríki og þjóð. Hér stendur að handhafar löggjafarvalds o.s.frv. fari með forsjá, vörslu og ráðstöfunarrétt auðlindanna og réttindanna í umboði þjóðarinnar. Er það ekki bara framkvæmdarvaldið, er það ekki bara ríkið? Ætti greinin ekki að heita Auðlindir í náttúru Íslands eru ævarandi eign ríkisins? Er það ekki miklu heiðarlegra? Af hverju er verið að nota þjóðina eins og menn gerðu í eina tíð, „das Volk“, eins og í Þýskalandi? Af hverju eru menn að nota þjóðina til að (Forseti hringir.) sölsa auðlindir þjóðarinnar undir ríkið?