141. löggjafarþing — 106. fundur,  18. mars 2013.

stjórnarskipunarlög.

641. mál
[20:28]
Horfa

Árni Þór Sigurðsson (Vg):

Frú forseti. Hér er til umfjöllunar frumvarp til stjórnarskipunarlaga um breytingu á stjórnarskrá. Einkum er verið að ræða tillögu sem formenn þriggja stjórnmálaflokka, Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs, hæstv. mennta- og menningarmálaráðherra, Katrín Jakobsdóttir, formaður Samfylkingarinnar, hv. þm. Árni Páll Árnason, og formaður Bjartrar framtíðar, hv. þm. Guðmundur Steingrímsson, hafa lagt fram um að breyta ákvæðum stjórnarskrár um hvernig stjórnarskránni er breytt. Ég vona að það sé skýrt fyrir þá sem hlusta og fylgjast með umræðunni.

Stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd hefur fjallað um þá tillögu og gerir breytingartillögu við hana, aðeins við orðalagið og leggur jafnframt til að tillagan verði varanleg í stjórnarskránni en ekki tímabundin eins og var í frumvarpi hv. flutningsmanna sem ég gat um áðan. Ég vil segja fyrir mína parta að ég tel að umræðan sem hefur farið fram um málið í dag hafi verið góð. Hún hefur verið málefnaleg, það hefur að sjálfsögðu verið tekist á bæði um form og innihald eins og gengur en umræðan hefur mestan part verið málefnaleg að mínu viti. Ég vil sérstaklega segja um tillöguna að ég tel að með henni sé verið að reyna að tryggja stjórnarskrármálinu áframhaldandi farveg. Það hefur auðvitað verið talað um það hér að tíminn sé orðinn knappur til þess að ljúka málinu. Það hefur að vísu verið mjög mikið unnið og ég vil leggja sérstaka áherslu á það, ekki síst vegna þess að í umræðunni hefur verið talað eins og lítill tími hafi gefist til að vinna málið og stundum látið eins og það sé rétt að koma inn í þingið núna.

Við skulum hafa hugfast að haldinn var þjóðfundur, sett á laggirnar sérstök stjórnlaganefnd og það var skipað stjórnlagaráð sem skilaði tillögum til Alþingis. Það var haldin sérstök þjóðaratkvæðagreiðsla 20. október síðastliðinn þar sem var bæði spurt almennt hvort þjóðin vildi að tillögur stjórnlagaráðs yrðu grunnur að nýrri stjórnarskrá, þ.e. myndaði grunn að þeirri vinnu og afgreiðslu sem málið fengi á hv. Alþingi, og það var spurt nokkurra efnislegra spurninga, m.a. um þjóðareign á auðlindum, persónukjör, þjóðkirkjuna o.fl. Málið hefur síðan verið til umfjöllunar á Alþingi í stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd vikum saman, mánuðum saman og stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd sendi einstaka þætti frumvarpsins til umfjöllunar í öllum fagnefndum Alþingis, öllum fastanefndum Alþingis þar sem var fjallað ítarlega um einstök málasvið sem féllu undir málasvið viðkomandi nefnda. Nefndirnar fengu umsagnir víða úr samfélaginu, þær fengu gesti á sinn fund, bæði hagsmunaaðila, fræðimenn, embættismenn og fleiri. Á vettvangi Alþingis hefur að sjálfsögðu farið fram mikil vinna í kringum þetta stjórnarskrárfrumvarp þannig að auðvitað er það ekki rétt og ekki sanngjarnt sem er haldið fram, að ekki hafi gefist gott tóm til að fjalla um málið, velta upp ýmsum álitaefnum og takast á um hugmyndir eins og eðlilegt er í pólitískri rökræðu.

Gott og vel. Við erum stödd hér rúmlega mánuði fyrir alþingiskosningar. Eins og menn þekkja ganga stjórnarskrárbreytingar á gildandi stjórnarskrá þannig fyrir sig að fyrst þarf Alþingi sem situr að samþykkja breytingar á stjórnarskrá og þegar það er gert er Alþingi rofið, þingkosningar fara fram og nýtt Alþingi tekur afstöðu til sömu breytinga á stjórnarskránni. Þegar sú staða er uppi núna, fimm, sex vikum fyrir kosningar, að Alþingi glímir enn við stjórnarskrána ákváðu formenn ríkisstjórnarflokkanna tveggja ásamt formanni Bjartrar framtíðar að reyna með tillöguflutningi sínum að tryggja að stjórnarskrármálið fengi áframhaldandi vinnslu inn á næsta kjörtímabil. Það var sannfæring okkar sem studdum að formennirnir kæmu fram með þá tillögu að hún gæti liðkað fyrir málinu og verið innlegg í þá umræðu að unnið yrði með stjórnarskrána áfram inn á næsta kjörtímabil, burt séð frá því hvort þetta þing tæki einhverjar greinar eða einhverja þætti stjórnarskrármálsins til efnislegrar afgreiðslu. Þetta var sjálfstæð tillaga sem laut að málsmeðferðinni, einkum og sér í lagi um breytingarákvæði í stjórnarskrá og því fylgdi síðan tillaga til þingsályktunar um að Alþingi kysi sérstaka stjórnarskrárnefnd til að fjalla áfram um málið, bæði þau gögn sem liggja fyrir í málinu og hugsanlega aðrar tillögur sem kynnu að koma fram á þeim vettvangi og kæmu málinu aftur inn á næsta þing.

Það er síðan í höndum þess hvernig það vill taka á því máli og ef breytingartillagan sem liggur fyrir um aðferðafræðina við að breyta stjórnarskrá yrði samþykkt væri hægt að ganga frá stjórnarskrárbreytingum fljótlega á næsta kjörtímabili eða í öllu falli áður en því lyki. Hér hefur verið bent á, sem er auðvitað staðreynd málsins, að næsta þing gæti auðvitað tekið ákvörðun, jafnvel þó að breytingarákvæðinu yrði ekki breytt, um að ganga frá breytingum á stjórnarskrá og rjúfa síðan þing og boða til kosninga, en reynslan kennir okkur að það er sjaldan gert. Ég man ekki eftir dæmum um það í seinni tíð að stjórnarskrárbreytingar hafi verið gerðar á miðju þingi og það síðan rofið og boðað til kosninga. Fyrir utan það að æskilegt kann að vera að halda sig við þær tillögur sem liggja fyrir, vinna þær áfram og gera þær breytingar á meðan enn er hiti í málinu, að hamra járnið meðan heitt er, eins og er sagt. Það hefði ég talið skynsamlegt.

Þess vegna komu mér á óvart þau viðbrögð sem við heyrum dálítið í umræðunni, að þetta sé ekki innlegg til þess að höggva á hnútinn eða leysa málið eins og uppleggið var að sjálfsögðu. Ég tel reyndar enn þá að það eigi að láta reyna á það, það eigi að láta reyna á það gagnvart öðrum stjórnmálaflokkum hvort þeir eru ekki reiðubúnir til að vinna málinu framgang áfram með þeim hætti og á þeim grunni sem fyrirliggjandi frumvarp gerir ráð fyrir og þingsályktunartillaga.

Ég hef kallað eftir því fyrr í umræðunni að fá að sjá hugmyndir, til að mynda Sjálfstæðisflokksins, um breytingar á stjórnarskrá, t.d. að því er varðar auðlindaákvæðið. Það hefur sérstaklega verið rætt hér og tilefnið í þessari umræðu er að sjálfsögðu breytingartillaga á þingskjali 1278, sem hv. þingmenn Oddný G. Harðardóttir, Álfheiður Ingadóttir og Skúli Helgason flytja ásamt mér, þar sem við leggjum fram sýn okkar á auðlindaákvæðinu. Framsóknarflokkurinn kom með ákveðið útspil í því efni um daginn. Það hefur verið kvartað yfir því sérstaklega að nokkrir þingmenn Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs hafi brugðist heldur ókvæða við því útspili. Ég sagði í ræðustól um daginn að það væri þó alla vega verið efnislegt innlegg í umræðuna og ég hrósa Framsóknarflokknum fyrir það enda þótt ég sé ekki stuðningsmaður ákvæðisins eins og það var lagt fram þar, en það er ekkert óeðlilegt að menn takist á um slíkar hugmyndir. Það var efnislegt innlegg í umræðuna og ég sakna þess að Sjálfstæðisflokkurinn sýni ekki á einhver spil hvað það varðar, sýni hvað hann vill raunverulega með auðlindaákvæði vegna þess að talsmenn hans hafa komið í ræðustól skipti eftir skipti og sagt að Sjálfstæðisflokkurinn hafi lengi talað fyrir auðlindaákvæði í stjórnarskrá. Af hverju fáum við þá ekki að sjá það? Af hverju fáum við ekki að sjá hvað Sjálfstæðisflokkurinn vill raunverulega með auðlindaákvæði í stjórnarskrá?

Það læðist auðvitað að manni sá grunur að áhuginn þar á bæ sé í raun og veru ekki eins mikill eins og þau láta í veðri vaka í umræðunni. Ég vil líka segja að þrátt fyrir að Framsóknarflokkurinn hafi komið með ákveðið innlegg í umræðuna að því er varðar auðlindaákvæði, sem ég er ekki sammála en það er alla vega tillaga, veldur það mér vonbrigðum að Framsóknarflokkurinn skuli ekki vilja ræða málið til enda þannig að stjórnarskrármálin fái einhverja afgreiðslu í þingsal. Ég vísa meðal annars til þess að á flokksþingi flokksins í janúar samþykkti Framsóknarflokkurinn stefnumótun um að auðlindaákvæði ætti að koma inn í stjórnarskrá. Í kosningastefnuskrá Framsóknarflokksins fyrir kosningarnar 2009 sagði meðal annars að það væri vilji Framsóknarflokksins, með leyfi frú forseta:

„að ný og nútímaleg stjórnarskrá verði samin af stjórnlagaþingi þar sem eiga sæti þjóðkjörnir fulltrúar. Að aðskilnaður löggjafar- og framkvæmdarvald sé skerptur til muna. Ráðherrar gegni ekki þingmennsku. Að heimildir til þjóðaratkvæðagreiðslu verði auknar og oftar leitað beint til þjóðarinnar.“

Nú bregður svo við að allt þetta úr kosningastefnuskrá Framsóknarflokksins fyrir kosningarnar 2009 er að finna í tillögu að nýrri stjórnarskrá og raunar meira til. Um leið og Framsóknarflokkurinn segist vilja fjölga þjóðaratkvæðagreiðslum og að oftar verði leitað beint til þjóðarinnar virðist sem flokkurinn ákveði að hafa að engu skýran vilja þjóðarinnar í atkvæðagreiðslunni 20. október um nýja stjórnarskrá.

Frú forseti. Sá málflutningur Framsóknarflokksins er ótrúverðugur og framsóknarmenn verða að svara því í aðdraganda kosninga í næsta mánuði hvað þeir meina raunverulega með honum. Þeir verða auðvitað krafnir svara um hvaða tillögur þeir muni leggja fram á næsta þingi í stjórnarskrármálinu, m.a. að því er varðar auðlindirnar sem flokksþingið samþykkti í janúar (Gripið fram í.) að ætti að fara inn í stjórnarskrá. (Gripið fram í.)

Frú forseti. Hv. þm. Vigdís Hauksdóttir verður eitthvað óróleg þegar talað er um stefnu Framsóknarflokksins, bæði samþykktir flokksþings og kosningastefnuskrána frá 2009. Það er engu líkara en að nú vilji flokkurinn ekkert kannast við það sem hann hefur áður samþykkt í þeim málum (Gripið fram í.) Að sjálfsögðu verður flokkurinn krafinn svara um hvað hann vill raunverulega í þeim málum vegna þess að málflutningur hans í því efni hefur verið ótrúverðugur. Við hljótum í raun að spyrja hvað veldur því að Framsóknarflokkurinn er ekki reiðubúinn til að styðja þær breytingar á stjórnarskrá sem hann hefur sjálfur barist fyrir. [Andvarp í þingsal.] Það heyrast stunur í hv. þingmanni í salnum, frú forseti. (Gripið fram í.) Eins og ég segi hlýtur þess að vera krafist að flokkurinn styðji að minnsta kosti þær breytingar sem hann hefur sjálfur staðið fyrir. (Gripið fram í.) Við hljótum að kalla eftir því.

Í breytingartillögu á þingskjali 1278, sem liggur einnig fyrir í málinu, setjum við flutningsmenn þeirrar tillögu fram þá sýn sem við viljum sjá á auðlindaákvæði í stjórnarskrá. Sú tillaga er samhljóða breytingartillögu sem kom frá stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd þegar hún fjallaði um stjórnarskrána í heild sinni, þar með talið ákvæði um auðlindir í þjóðareigu. Menn hafa komið í andsvör og gagnrýnt að þá tillögu sé ekki að finna í tillögum formannanna þriggja sem einnig eru undir í því máli. Því er auðvitað til að svara að sú tillaga, eins og ég sagði áðan, var fyrst og fremst hugsuð til að vera innlegg í því að tryggja áframhald stjórnarskrármálsins inn á næsta kjörtímabil og tryggja að hægt væri að gera breytingar á stjórnarskránni án þess að bíða heilt kjörtímabil eða rjúfa þing á miðju kjörtímabili. Það er ekkert ósamræmi í því þótt við fjórir þingmenn úr stjórnarflokkunum tveimur flytjum síðan tillögu sem er sameiginleg sýn okkar á hvernig við viljum sjá auðlindaákvæðinu fyrir komið. Eins og hv. þm. Oddný G. Harðardóttir fór rækilega yfir í máli sínu fyrr í kvöld er gerð grein fyrir sjónarmiðunum sem þarna liggja að baki og hver skilningurinn er á því ákvæði í nefndaráliti stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar enda er sú tillaga, eins og ég segi, samhljóða þeirri tillögu sem er að finna þar. Ég þarf ekki að fara ítarlegar í það mál.

Frú forseti. Ég vil segja að ég tel mjög brýnt að við fáum einhverja úrlausn í stjórnarskrármálinu áður en þessu þingi lýkur. Ég tel það mjög brýnt. Vonir okkar margra hverra, kannski flestra, stóðu til þess strax í haust að við gætum og að okkur mundi auðnast að ljúka umfjöllun um stjórnarskrána í heild sinni eins og hún kom frá stjórnlagaráði og með þeim breytingum sem stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd lagði til á henni. Nú hafa þingstörfin gengið þannig fyrir sig að við erum mörg hver orðin úrkula vonar um að það takist og við hljótum að velta fyrir okkur hvernig málinu sé best fyrir komið undir lok þessa þings og inn á hið næsta.

Ég tel að besta leiðin til þess sé í fyrsta lagi að samþykkja það frumvarp með þeim breytingartillögum sem meiri hluti stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar hefur gert, frumvarp flokksformannanna þriggja að því er varðar breytingarákvæði á stjórnarskrár, og að samþykkja þingsályktunartillögu þeirra um framhald málsins inn á næsta kjörtímabil. Ég tel það nauðsynlegt. Hvað einstök efnisatriði varðar ætla ég ekki að draga dul á að í mínum huga er auðlindaákvæðið, ákvæðið um auðlindir í þjóðareign, það allra, allra mikilvægasta og ég tel brýnt að það fái afgreiðslu á þessu þingi. Ég vonast sannarlega til þess.

Einstakir þingmenn geta að sjálfsögðu komið fram með breytingartillögur við þá tillögu sem liggur fyrir. Hv. þingmenn Framsóknarflokksins geta auðvitað komið fram með breytingartillögu við þá tillögu kjósi þeir svo (Gripið fram í.) og menn geta þá tekist á um það í atkvæðagreiðslum. Mér finnst lýðræðislegt að gera það.

Inni í umræðuna hefur síðan blandast spurningin um breytingartillögu á þingskjali 1244 frá Margréti Tryggvadóttur en á henni leggur hún fram tillögu sem felur í sér stjórnarskrána í heild sinni eins og hún kom frá stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd, að vísu með einu fráviki sem lítur einmitt að greininni um náttúruauðlindir. Menn hafa spurt sig hvort sú tillaga sé tæk til afgreiðslu í þinginu og um það geta að sjálfsögðu verið skiptar skoðanir og ekki endilega víst að allir stjórnskipunarfræðingar væru á einu máli þar um. Ég vil þó segja að það er alveg víst að í gildandi stjórnarskrá er því slegið föstu að ekkert lagafrumvarp megi samþykkja nema það hafi hlotið þrjár umræður á Alþingi.

Komi upp ágreiningur eða vafamál um hvort lagafrumvarp hafi fengið þrjár umræður á Alþingi álít ég það verkefni forseta Alþingis að úrskurða hvort slíkt lagafrumvarp verði að ganga að nýju í gegnum allt ferlið þannig að tryggt sé að það fái þrjár umræður. Við getum sett upp dæmi sem væri eitthvað á þá leið að hér lægi fyrir frumvarp um kannski eina breytingu á einhverri lagagrein og svo við 3. umr. um málið kæmi fram breytingartillaga sem innihéldi heilan lagabálk, það er hægt. Þá hlytu menn að segja að það frumvarp hefði ekki fengið þrjár umræður í Alþingi. Ef slíkar breytingartillögur yrðu samþykktar í 3. umr. um mál, breytingar sem fælu í sér algjörlega nýja löggjöf, tel ég að forseti ætti ekki annan kost en þann að segja að málið færi héðan í 2. umr. af því að í raun væri þetta 1. umr. um málið. Hvort það á nákvæmlega við um þá breytingartillögu sem hv. þm. Margrét Tryggvadóttir hefur flutt skal ég ekki fullyrða vegna þess að sú breytingartillaga er samhljóða tillögu sem þegar hefur verið til umfjöllunar, a.m.k. í 1. umr. og er í 2. umr., en þetta er álitamál og ég viðurkenni það.

Það er mjög eðlilegt að sú spurning hafi komið upp í umræðunni. Þetta á hins vegar alls ekki við um þá breytingartillögu sem ég og þrír aðrir þingmenn höfum lagt fram við frumvarp flokksformannanna þriggja þar sem er verið að leggja til eina nýja grein í gildandi stjórnarskrá, ekki nýjan lagabálk heldur breytingartillögu inn í gildandi stjórnarskrá. Að mínu viti er sú tillaga algjörlega óyggjandi tæk sem breytingartillaga við það frumvarp og eðlilegt að hún fái umfjöllun hér.

Ég vil líka segja að mér finnst mjög mikilvægt að Alþingi taki alvarlega þá þjóðaratkvæðagreiðslu sem fór fram 20. október síðastliðinn. Þar voru lagðar fyrir þjóðina ákveðnar spurningar um grundvöll að nýrri stjórnarskrá og tilteknar efnisspurningar og þær spurningar fengu úrlausn í þjóðaratkvæðagreiðslunni. Það var ágæt þátttaka í þjóðaratkvæðagreiðslunni og var niðurstaða í öllum tilfellum býsna afgerandi, aðeins mismunandi eftir spurningum en í heild sinni býsna afgerandi. Mér finnst skylda Alþingis að taka þau skilaboð sem komu úr þeirri þjóðaratkvæðagreiðslu, vinna áfram með þau og koma þeim inn í stjórnarskrá okkar í samræmi við niðurstöðu þjóðaratkvæðagreiðslunnar. Sumir hér segja að þetta hafi einungis verið skoðanakönnun af því að það var ekki bindandi þjóðaratkvæðagreiðsla og ég vil segja við þá að mér finnst lítilsvirðing við fyrirbærið þjóðaratkvæðagreiðslu að kalla það bara skoðanakönnun þótt þjóðaratkvæðagreiðsla af því tagi sé eðli málsins samkvæmt ráðgefandi. Hún er ráðgefandi en í henni felast skýr skilaboð til þjóðþingsins um hvernig á að vinna málið áfram og sú niðurstaða að tillögur stjórnlagaráðs ættu að vera grundvöllur að nýrri stjórnarskrá er eitthvað sem við getum ekki sagt að við ætlum ekkert að gera með. Við getum svo auðvitað velt því fyrir okkur hvort það þurfi að gerast á einu og sama þinginu eða hvort það má taka lengri tíma, en það er ekki hægt að ganga fram hjá skýrum þjóðarvilja sem birtist í þjóðaratkvæðagreiðslunni 20. október. Við verðum að virða hann, bæði þetta þing og næsta þing, alveg sama hvernig það er skipað, vegna þess að þjóðarviljinn í spurningunum um þjóðaratkvæðagreiðslu er skýr. Stjórnmálaflokkarnir verða að virða þann skýra vilja.

Frú forseti. Ég legg áherslu á frá mínum bæjardyrum séð að við reynum að afgreiða frumvarpið sem liggur fyrir frá formönnum þriggja stjórnmálaflokka, Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs, Samfylkingarinnar og Bjartrar framtíðar, með þeim breytingartillögum sem stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd hefur gert þar að lútandi við málið. Ég vil gjarnan sjá þá breytingartillögu sem ég og fleiri flytjum varðandi auðlindaákvæði koma til atkvæðagreiðslu og afgreiðslu. Eins og ég segi hef ég miklu meiri efasemdir um breytingartillögu frá hv. þm. Margréti Tryggvadóttur vegna þess að ég tel að hún sé í raun og veru til þess fallin að setja málið út af borðinu og þar með viðurkenni ég það, ég tel það vera svo. Ég tel að á þeim tíma sem fyrir liggur verði ekki unnt að afgreiða málið, svo stórt mál, til enda. Ég lít svo á að aðrar tillögur sem liggja fyrir séu tilboð stjórnarflokkanna og Bjartrar framtíðar um að finna ásættanlega niðurstöðu og ásættanlegan farveg sem Alþingi væri sómi að í aðdraganda komandi þingkosninga og svo áfram inn á næsta Alþingi því að við ætlum væntanlega og vonandi að vinna áfram með stjórnarskrána á næsta kjörtímabili og ekki láta hér við sitja. Ég held að ákall þjóðarinnar sé að við gefumst ekki upp við þetta verkefni. Það væri mikil synd.

Ég tek undir með hæstv. innanríkisráðherra, Ögmundi Jónassyni, sem sagði í dag í ræðu sinni að fráleitt sé að kalla það svik við þjóðina þó að stjórnarskrármálið í heild sinni verði ekki klárað hér það sem eftir lifir þings ef okkur tekst að koma því í farveg inn á næsta kjörtímabil, tekst að tryggja að áfram verði unnið með málið inn á næsta kjörtímabil þannig að við munum að endingu fá stjórnarskrá sem er grundvölluð á tillögum stjórnlagaráðs með þeim breytingum sem stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd hefur lagt til og prýðilega góð samstaða var um í raun. Það er sagt að nú sé engin starfsáætlun í gildi og þá hlýtur maður að draga þá ályktun að við getum verið hér eins lengi og við viljum, allar nætur og fram undir kosningar þótt ég ætli ekki að vera að gantast með það, auðvitað þurfum við að ljúka þingstörfum með sómasamlegum hætti og í góðri sátt áður en yfir lýkur. Það er von mín að okkur takist að afgreiða tillögur um hvernig má breyta stjórnarskránni, að okkur takist að afgreiða þingsályktunartillögu um framhald málsins á næsta kjörtímabili. Ég vona svo sannarlega að við getum fengið efnislega afgreiðslu á tillögu um auðlindaákvæði í stjórnarskrá. Eins og ég sagði áðan er sá einstaki þáttur langmikilvægastur í stjórnarskrármálinu og það er ólíkt með honum og ýmsum öðrum breytingartillögum sem liggja fyrir í þessum stjórnarskrárdrögum að auðlindaákvæðið hefur verið lengi til umfjöllunar í íslenskum stjórnmálum, það hafa verið gerðar margar atlögur að því máli, margar hugmyndir og tillögur liggja fyrir þannig að Alþingi er að mínu viti ekkert að vanbúnaði að taka afstöðu til þess máls.

Frú forseti. Ég vonast til þess, enn og aftur, að við berum gæfu til að ljúka umfjöllun um stjórnarskrármálið á þessu þingi með sómasamlegum hætti og tryggja framgang þess inn á næsta kjörtímabil þannig að við Íslendingar munum þegar upp er staðið fá nýja stjórnarskrá sem byggir í grunninn á tillögum stjórnlagaráðs og sem eru í samræmi við þau skilaboð sem við fengum í þjóðaratkvæðagreiðslunni 20. október, að við virðum hana. Það er skylda okkar að mínu viti.