141. löggjafarþing — 106. fundur,  18. mars 2013.

stjórnarskipunarlög.

641. mál
[21:11]
Horfa

Pétur H. Blöndal (S) (andsvar):

Frú forseti. Þegar ég skoða þetta ferli að formenn þessara tveggja flokka ætla að flytja tillögu til að ná fram sáttum og síðan koma þingflokksformennirnir með aðra tillögu þá segir það mér ekkert annað en að misklíð sé í viðkomandi þingflokkum. Það segir mér það, svo getur hv. þingmaður haldið einhverju öðru fram.

Ég sé ekki mun á því hvort hv. þm. Margrét Tryggvadóttir komi með sína, hvað á ég að segja, snjöllu hugmynd um að koma með heila stjórnarskrá sem breytingartillögu — það er eitrað peð inn í alla skákina — og því að hv. þingmaður kemur með auðlindaákvæðið, sem er úr þessari sömu stjórnarskrá, inn í málið. Ég sé ekki að þetta sé eðlismunur, þetta er kannski stigsmunur en þetta er ekki stór munur. Ég vil spyrja hv. þingmann: Telur hann eðlilegt að þjóðin fái ekki að greiða atkvæði um auðlindaákvæðið, því að það er það sem gerist? Ef tillaga hv. þingmanns verður samþykkt mun þjóðin aldrei greiða atkvæði um auðlindaákvæðið og þá fellur það utan þess sem hún mun greiða atkvæði um seinna meir.

Ég vil líka spyrja hv. þingmann, fyrst ég er byrjaður að spyrja: Mun hann greiða atkvæði með tillögu hv. þm. Margrétar Tryggvadóttur um eitt stykki stjórnarskrá? Og veit hann hvernig landið liggur í hans flokki varðandi þá tillögu sem margir eru hlynntir? Munu þeir þá greiða atkvæði með þeirri tillögu þegar hún kemur til atkvæða seinna meir sem eitt stykki stjórnarskrá sem þjóðin hefur greitt atkvæði um o.s.frv.? Ég vil spyrja hv. þingmann að þessu.