141. löggjafarþing — 106. fundur,  18. mars 2013.

stjórnarskipunarlög.

641. mál
[22:36]
Horfa

Helgi Hjörvar (Sf) (andsvar):

Virðulegur forseti. Tillagan um auðlindaákvæðið eins og hún liggur fyrir í þessu máli er einfaldlega tillaga meiri hluta stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar sem er niðurstaðan eftir að minnsta kosti 13 ára umræður um þessi efni. Sú útgáfa sem við höfum besta á slíku ákvæði er eftir 13 ára umræður, tveggja kjörtímabila málþóf, 118 lögfræðiálit og fleiri eða færri nefndir og fundi og ráðstefnur um málið fram og til baka. Það er ekkert eðlilegra en að eftir svo ítarlega umfjöllun fái slíkt mál bara að ganga til atkvæða á Alþingi Íslendinga því að til þess hefur þjóðin kjörið Alþingi Íslendinga að þjóðkjörnir fulltrúar gæti þar hagsmuna þeirra eftir leikreglum lýðræðisins og ef það er sannfæring meiri hluta Alþingis að fylgja eigi fram vilja meiri hluta þjóðarinnar úr þjóðaratkvæðagreiðslu um þjóðareign á auðlindum með þessum hætti, og fyrir því eru 32 atkvæði eða fleiri, er engin ástæða til annars en að það fái að koma til atkvæða. Það er algerlega fráleitt og ekki með nokkrum lýðræðislegum hætti, engum efnislegum rökum og engum málefnum, hverju nafni sem nefnast, hægt að leggjast gegn því að mál sem er svo fullþroskað og svo algerlega útrætt fái að ganga til atkvæða á Alþingi Íslendinga. Það er andlýðræðisleg starfsemi.