141. löggjafarþing — 106. fundur,  18. mars 2013.

stjórnarskipunarlög.

641. mál
[22:42]
Horfa

Ólína Þorvarðardóttir (Sf):

Virðulegi forseti. Nú höldum við áfram að ræða stjórnarskrármálið sem hefur farið langa vegferð og margir steinar verið lagðir í götu þess. Nýjasti grjótburðurinn í þeirri vegferð birtist okkur þessa dagana í málþófstilburðum stjórnarandstöðunnar, einkum Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokks sem hafa allt á hornum sér, kannast ekki við fyrri yfirlýsingar, kannast ekki við bókanir og samþykktir og vilja málið út af dagskrá.

Mér finnst rétt að við rifjum upp nokkur atriði sem áður hafa verið sögð. Ég læt nægja að miða við auðlindaákvæðið því að hér er tillaga á borðum um að það verði afgreitt úr þinginu eitt og sér.

Ég vil fyrst drepa niður í málflutning hv. þm. Sigurðar Inga Jóhannssonar sem nú situr á forsetastóli og hlýðir á mál mitt. Það er ágætt. Þann 15. febrúar er hann í umræðu og minnir þá á það sem framsóknarmenn sögðu í byrjun janúar, að þeir væru til í að setjast yfir málið og finna þau ákvæði sem hægt væri að ná sátt um og breyta og segir síðan, með leyfi forseta:

„Við höfum í því sambandi bent á auðlindaákvæði í stjórnarskrá og ákvæði um þjóðaratkvæðagreiðslur.“

Sami þingmaður segir þann 17. febrúar, tveim dögum síðar, í viðtali við vefmiðilinn Vísi að flestir flokkar hafi talað um mikilvægi þess að halda ákvæði um auðlindir í þjóðareign inni í frumvarpinu og bætir því við að framsóknarmenn séu tilbúnir að styðja breytingar á einstökum ákvæðum.

Nokkru fyrr hafði hv. þm. Vigdís Hauksdóttir verið í viðtali á RÚV þar sem hún lagði áherslu á það að auðlindaákvæðið færi inn í stjórnarskrá fyrir næstu kosningar, svo vitnað sé orðrétt til ummæla hennar, og það er nefnt sem eitt af þeim atriðum sem framsóknarmenn leggi höfuðáherslu á. Síðan má minna á að í drögum að ályktun um innanríkismál á síðasta flokksþingi framsóknarmanna segir, með leyfi forseta:

„Markmið Framsóknarflokksins um nýtt auðlindaákvæði í stjórnarskrá, raunverulegan aðskilnað framkvæmdarvalds og löggjafarvalds auk skýrs ákvæðis um beint lýðræði, eru mikilvægustu breytingarnar sem gera þarf á stjórnarskrá Íslands.“

Á landsfundi Sjálfstæðisflokksins sem er tiltölulega nýafstaðinn kemur líka fram í ályktun, með leyfi forseta:

„Sjálfstæðisflokkurinn hefur lengi verið hlynntur því að setja ákvæði um náttúruauðlindir í stjórnarskrá.“

Hérna drep ég bara niður á nokkur nýleg ummæli úr stjórnmálaumræðunni frá stóru stjórnarandstöðuflokkunum sem núna hafa allt á hornum sér. Mætti ætla að þeir hefðu aldrei nokkurn tíma leitt hugann að því sem hér var verið að vitna í ef marka má umræður síðustu daga.

Ég ætla líka að seilast aðeins lengra og minna á afstöðu þessara flokka því að hún er ekki alveg ný af nálinni þó að ég vitni hér í nýleg ummæli. Í upphafi þessa kjörtímabils var settur á laggirnar starfshópur um endurskoðun á lögum um stjórn fiskveiða og í skýrslu hans sem í áttu sæti fulltrúar allra stjórnmálaflokka á Alþingi kemur fram að starfshópurinn, „að undanskildum fulltrúum LÍÚ“ — það er rétt að taka það fram — „telur nauðsynlegt að skýrt ákvæði um þjóðareign á náttúruauðlindum, þar með töldum auðlindum sjávar, komi í stjórnarskrá íslenska lýðveldisins“. Hér vitna ég orðrétt í skýrsluna.

Síðan er bent á það í skýrslunni að mikil þróun hafi orðið „varðandi umræðu um stjórnarskrárákvæðin sem snúa að fiskveiðiauðlindinni. Nú má heita að það sé almenn skoðun að slíkt ákvæði eigi ekki að ná eingöngu til fiskveiðiauðlindarinnar. Þetta þurfi að vera allsherjarákvæði sem nái til fleiri auðlinda. Mikil þróun hefur orðið í umræðu um auðlindir og ákvæði stjórnarskrár og er það útbreidd skoðun að allar auðlindir þurfi í stjórnarskrá að teljast þjóðareign.“

Þar er líka minnt á að mikið „hefur verið unnið í þessum málum á undangengnum árum“ og „að ætíð hefur verið lagt upp með hin síðari ár að stjórnarskrárákvæðin eigi að ná til allra náttúruauðlinda í samræmi við það sem auðlindanefndin ræddi“ á sínum tíma og er þar verið að vísa til auðlindanefndarinnar frá árinu 2000 sem lagði til að eignarréttarleg staða náttúruauðlinda sem nú séu taldar í þjóðareign verði samræmd með þeim hætti að tekið verði upp nýtt ákvæði í stjórnarskrá sem þær verði lýstar þjóðareign eftir því sem nánar verði ákveðið í lögum. Líka segir í niðurstöðum auðlindanefndarinnar frá árinu 2000 að veita „megi einstaklingum og lögaðilum heimild til afnota af þessum náttúruauðlindum gegn gjaldi að því tilskildu að hún sé tímabundin eða henni megi breyta með hæfilegum fyrirvara eftir því sem nánar væri ákveðið í lögum“.

Ég læt þetta nægja að sinni til að hressa aðeins upp á minni þingmanna sem virðist ansi gloppótt og sný mér að efnisinntaki sjálfs auðlindaákvæðisins.

Eins og menn muna lagði stjórnlagaráðið til ákveðið orðalag á tillögunni að hinu nýja auðlindaákvæði í stjórnarskránni sem er merk nýjung en engu að síður löngu tímabær nái hún inn í stjórnarskrá landsins. Sérfræðinganefnd sem þingið kallaði til eftir að stjórnlagaráðið lagði fram sínar tillögur gerði orðalagsbreytingu á því ákvæði þar sem hugtakið auðlindir í einkaeigu varð fyrir þeirri breytingu að það var talað um auðlindir háðar einkaeignarrétti. Ég skal játa að ég hafði framan af áhyggjur af þessari breytingu sem sérfræðinganefndin lagði til, þ.e. ég óttaðist að þessi breyting gæti snúið ákvæðinu upp í andhverfu sína en í tillögu stjórnlagaráðs að nýrri stjórnarskrá og á atkvæðaseðlinum sem almenningur tók afstöðu til 20. október sl. sagði um auðlindir í 34. gr. að auðlindir í náttúru Íslands sem ekki væru í einkaeigu væru sameiginleg og ævarandi eign þjóðarinnar.

Í því frumvarpi sem í fyrstu var lagt fyrir Alþingi eftir yfirferð sérfræðinganefndarinnar var talað um þær auðlindir sem ekki væru háðar einkaeignarrétti og ég óttaðist að með þessari breytingu væri verið að vísa því til ákvörðunar dómstóla framtíðarinnar að færa nýtendum auðlindanna eignarrétt, t.d. kvótahöfum yfir fiskveiðiauðlindinni, en það var ekki það sem þjóðin kaus um 20. október því að þá tóku kjósendur jákvæða afstöðu til þess að auðlindirnar, þar með talin fiskveiðiauðlindin, væru ævarandi eign þjóðarinnar.

Það þarf að búa þannig um hnúta í stjórnarskrá að engin hætta sé á því að ákvæði sem á að vernda eignarrétt þjóðarinnar yfir auðlindum snúist upp í andhverfu sína því að það má enginn vafi leika á um inntak slíks ákvæðis. En nú hefur stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd gert frekari lagfæringu á ákvæðinu og þær breytingar eru að mínu viti til bóta og girða fyrir þá keldu sem ég óttaðist að væri til orðin án þess þó að breyta inntaki ákvæðisins. Í raun og veru er þarna verið að skerpa á vilja stjórnlagaráðs eins og stjórnlagaráð sjálft skýrir vilja sinn í greinargerð með tillögum sínum.

Í breytingartillögu stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar segir, með leyfi forseta:

„Auðlindir í náttúru Íslands sem ekki eru háðar einkaeignarrétti eru sameiginleg og ævarandi eign þjóðarinnar. Enginn getur fengið þær eða réttindi tengd þeim til eignar eða varanlegra afnota og aldrei má selja þær eða veðsetja. Handhafar löggjafar- og framkvæmdarvalds fara með forsjá, vörslu og ráðstöfunarrétt auðlindanna og réttindanna í umboði þjóðarinnar.“

Síðan segir sem mér finnst skipta verulegu máli:

„Óheimilt er að framselja beint eða óbeint með varanlegum hætti til annarra aðila réttindi yfir jarðhita, vatni með virkjanlegu afli og grunnvatni, sem og námaréttindi, í eigu ríkisins eða félaga sem alfarið eru í eigu þess. Sama gildir um réttindi yfir vatni, jarðhita og jarðefnum á ríkisjörðum umfram lágmarksréttindi vegna heimilis- og búsþarfa.“

Þetta skiptir máli, m.a. vegna þess sem hv. þm. Helgi Hjörvar kom inn á í andsvörum rétt áðan, til að tryggja að ekki sé hætt við því að til dæmis orkuauðlindirnar okkar sem eru í eigu ríkisfyrirtækja eins og Landsvirkjunar verði einkavæddar eða framseldar til einkaafnota.

Síðan er í hinu breytta ákvæði eins og það kemur núna frá stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd skilgreint hvað teljist til þjóðareignar og þar er kveðið á um það að löggjafinn geti ákveðið að lýsa fleiri auðlindir og náttúrugæði þjóðareign. Það er hnykkt á mikilvægi sjálfbærrar þróunar og að almannahagur skuli hafður að leiðarljósi við nýtingu auðlindanna og tekið fram að stjórnvöld beri, ásamt þeim sem nýti auðlindirnar, ábyrgð á vernd þeirra og geti á grundvelli laga veitt leyfi til afnota eða hagnýtingar auðlinda, sem og annarra takmarkaðra almannagæða, gegn eðlilegu gjaldi og til tiltekins hóflegs tíma í senn.

Svo kemur viðbót sem mér þykir afar vænt um:

„Slík leyfi skal veita á jafnræðisgrundvelli og þau leiða aldrei til eignar eða óafturkallanlegs forræðis.“

Þannig breytt tel ég að þetta auðlindaákvæði sé orðið mjög vel ásættanlegt, að það þjóni markmiði sínu og samrýmist um leið öðrum ákvæðum stjórnarskrárfrumvarpsins, t.d. eignarréttarákvæðinu og náttúruverndarákvæðinu.

Ég vil að lokum aðeins segja þetta um málið í heild: Krafan um nýja stjórnarskrá hefur ómað um allt samfélagið frá því að við vöknuðum upp við vondan draum haustið 2008 og gerðum okkur grein fyrir að stjórnarskrá landsins og löggjöf höfðu ekki varið okkur fyrir leyndarhyggju, spillingu og stjórnsýsluleti, ekki veitt það viðnám sem þurfti. Krafan um nýjan samfélagssáttmála varð þá þegar leiðarstefið í stjórnmálaumræðunni og ein stærsta væntingin í garð Alþingis. Rannsóknarskýrsla Alþingis tók í sama streng og Alþingi samþykkti að verkið skyldi unnið í því víðtæka samráði sem síðan hefur átt sér stað. Við vitum að það hefur ekki gengið alveg snurðulaust fyrir sig. Það risu upp öfl í samfélaginu, öfl sem eru til staðar og hafa alltaf verið til staðar, öfl sem vilja ekki nýjan samfélagssáttmála heldur standa vörð um óbreytt ástand. Það eru öflin sem hafa núna beitt áhrifum sínum á þjóðþinginu, í stjórnsýslunni og jafnvel í Hæstarétti landsins. Það eru öflin sem vilja ganga um stjórnsýsluna, lýðræðið, auðlindirnar og náttúru Íslands af sama skeytingarleysi og gengið var um fjárhirslur bankastofnana, lífeyrissjóða og ríkissjóðs í aðdraganda hrunsins. Þá er ég að tala um öflin sem hafa gripið huliðshendi um leynda valdaþræði og vilja halda þeim og stjórna í krafti leyndar og ógagnsæis.

Þann 20. október sl. fór fram þjóðaratkvæðagreiðsla um megininntak stjórnarskrárfrumvarpsins. Þá tóku kjósendur afstöðu til niðurstöðu 950 manna þjóðfundar sem lagði grunngildin að því plaggi sem stjórnlagaráð lagði fyrir Alþingi og þingið hefur síðan unnið að með aðkomu færustu sérfræðinga og í víðtæku samráði. Ekkert mál í þinginu hefur fengið víðtækari efnismeðferð en stjórnarskrármálið nema ef vera skyldi fiskveiðifrumvarpið sem ekki má nefna í eyru framsóknarmanna og sjálfstæðismanna. Þjóðin hefur nú þegar fengið að segja af eða á um þau álitamál sem voru uppi eftir vinnu stjórnlagaráðs, hvort stjórnarskráin skyldi innihalda ákvæði um þjóðkirkju, auðlindir í þjóðareigu, stöðu náttúrunnar, upplýsingaskyldu stjórnvalda til almennings og jöfnun atkvæðavægis.

Fólkið hefur sagt vilja sinn um framvindu málsins og Alþingi ber að hlíta þeirri ráðgjöf þrátt fyrir andróður stríðandi afla innan veggja þingsins. Það væri áfall fyrir Alþingi Íslendinga að ljúka ekki þessu verki eða að minnsta kosti veigamiklum hluta þess við lok þessa kjörtímabils. Við skuldum þjóðinni það eftir allt sem á undan er gengið.