141. löggjafarþing — 107. fundur,  19. mars 2013.

stjórnarskipunarlög.

641. mál
[18:01]
Horfa

Pétur H. Blöndal (S) (andsvar):

Herra forseti. Það er einmitt það sem hv. þingmaður benti á að stjórnarliðar, Sjálfstæðisflokkur og Framsóknarflokkur, hefðu getað breytt stjórnarskránni og stjórnarandstaðan hefði getað haft hátt og mótmælt og ég veit ekki hvað og farið í stjórn fundarins og svo framvegis en stjórnarskránni hefði verið breytt. Mér líkar ekki svoleiðis vinnubrögð enda voru þau ekki viðhöfð á þeim tíma. Ég vil miklu frekar að það sé breið samstaða. Ég hef það mikla trú á lýðræði og að fólk kjósi að ég vil endilega sjá að það sé þjóðin sem breyti stjórnarskránni sinni en ekki þingið sem setji þjóðinni stjórnarskrá og troði henni ofan í kokið á henni, ef það má orða það þannig. Ég er á því, en auðvitað þarf þjóðin að vera mjög vel upplýst og þær breytingar sem menn eru að gera þurfa að vera mjög vel útskýrðar og þjóðin eða kjósendur þurfa að vita nákvæmlega hvað felst í þeim. Mér finnst skorta á það til dæmis varðandi auðlindaákvæðið. Auðlindaákvæðið er gott en menn þurfa að átta sig á því hvaða afleiðingar það hefur. Það er nefnilega þannig að hver einasti stafur og komma í hverri einustu grein í stjórnarskránni breytir öllum réttarforsendum. Það gefur til dæmis allt aðra hæstaréttardóma. Menn þurfa að átta sig á því og mega ekki verða hissa á Vestfjörðum eða annars staðar þar sem eru strandveiðar að allt í einu komi úrskurður: Nei, þið verðið að borga gjald eins og aðrir. Það þarf að vera jafnræði milli ykkar og til dæmis Granda. Þið megið ekki fá ódýrari veiðileyfi en Grandi.