141. löggjafarþing — 107. fundur,  19. mars 2013.

niðurgreiðslur húshitunarkostnaðar.

574. mál
[20:39]
Horfa

Frsm. atvinnuvn. (Björn Valur Gíslason) (Vg):

Forseti. Ég mæli fyrir nefndaráliti atvinnuveganefndar um frumvarp til laga um breytingu á lögum nr. 78/2002, um niðurgreiðslu húshitunarkostnaðar. Markmið frumvarpsins er tvíþætt, annars vegar að hvetja til notkunar innlends eldsneytis kyntra hitaveitna og hins vegar að lækka kostnað ríkisins vegna niðurgreiðslna á húshitunarkostnaði til lengri tíma litið. Frumvarpið er unnið samkvæmt tillögum starfshóps sem skipaður var af ráðherra til að gera tillögur um breytt fyrirkomulag á niðurgreiðslum húshitunarkostnaðar og skilaði hann tillögum sínum undir lok árs 2011.

Virðulegur forseti. Nefndarálit atvinnuveganefndar er stutt hvað þetta varðar. Nefndin leggur til að frumvarpið verði samþykkt óbreytt. Um það náðist þverpólitísk samstaða og leggur öll nefndin til að frumvarpið verði afgreitt eins og það var lagt fyrir í þinginu.

Undir nefndarálitið skrifa hv. þm. Björn Valur Gíslason, Lilja Rafney Magnúsdóttir, Logi Már Einarsson, Ólína Þorvarðardóttir, Einar Kristinn Guðfinnsson, Jón Gunnarsson og Sigurður Ingi Jóhannsson.