141. löggjafarþing — 107. fundur,  19. mars 2013.

lokafjárlög 2011.

271. mál
[21:58]
Horfa

Höskuldur Þórhallsson (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég vildi bara nota þetta tækifæri til að þakka hv. þm. Ásbirni Óttarssyni fyrir ánægjulegt og gott samstarf á síðustu fjórum árum. Við erum ekki margir sem höfum setið í nefndinni allt kjörtímabilið og það hefur gengið á ýmsu. En samstarfið hefur verið gott, okkur hefur ekki oft greint á, við höfum verið sammála um flest og kannski er það sem upp úr stendur vinnan sem hefur átt sér stað núna að undanförnu. Ég verð að segja það meiri hlutanum til hróss að hann hefur tekið sig á í vinnubrögðum í fjárlaganefnd, eins og komið hefur fram bæði í máli hv. þm. Björns Vals Gíslasonar og hv. þm. Ásbjörns Óttarssonar.

Mig langar hins vegar að spyrja hv. þingmann út í hinar mörkuðu tekjur. Hann kom inn á það í ræðu sinni að það hefði verið mikil samstaða um það í fjárlaganefnd að leggja þær af eða búa svo um hnútana að þær yrðu teknar inn í fjárlög hvers árs þannig að fjárstjórnarvaldið væri 100% hjá fjárlaganefnd. Eins og nefnt var hefur Ríkisendurskoðun bent á að það sé misbrestur á því. Ég hef líka verið talsmaður þess að auka fjárveitingavald Alþingis og tel að það sé kannski sá liður sem einna helst geti gert það að verkum að Alþingi styrkist og þá sérstaklega gagnvart framkvæmdarvaldinu.

Ég mundi gjarnan vilja eiga orðaskipti við hann um hinar mörkuðu tekjur og þá sérstaklega það skref sem ríkisstjórnin steig í öfuga átt (Forseti hringir.) varðandi RÚV.