141. löggjafarþing — 108. fundur,  21. mars 2013.

stjórnarskipunarlög.

641. mál
[12:54]
Horfa

Vigdís Hauksdóttir (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Þetta andsvar er akkúrat til merkis um að stjórnarliðar eru ekki tilbúnir til að taka faglega umræðu um stjórnarskrána sjálfa og að allar þær breytingartillögur sem þeir hafa sjálfir komið með inn í þingið eru vegna ósættis í þeirra eigin flokkum. Það getur ekki farið fram efnisleg umræða því búið er að setja málið í þannig hnút að jafnvel er orðið erfitt fyrir þá þingmenn sem eru lögfræðimenntaðir að finna út úr því hvaða þingskjal passar við hvað og hvað er breytingartillaga við hvaða breytingartillögu o.s.frv. Það eru náttúrlega alveg dæmalaus vinnubrögð á árinu 2013, sér í lagi eftir þær hörmungar sem landsmenn þurftu að ganga í gegnum á haustdögum 2008. Það er sorglegt að horfa upp á þau vinnubrögð því að málið snýst um stjórnskipan landsins.

Ég skal koma með efnislega spurningu fyrir þingmanninn og hafa hana mjög almenns eðlis og ekki mjög lögfræðitengda. Finnst þingmanninum í lagi að verði þetta frumvarp sem snýr að breytingargrein stjórnarskrárinnar að lögum í dag verði hægt til framtíðar að breyta stjórnarskránni á tvennan máta? Á þann máta sem er í gildi í dag þar sem þarf samþykkt eins þings, alþingiskosningar á milli og nýtt þing þarf svo að samþykkja breytingartillögurnar óbreyttar og þá eru þær orðnar að nýjum stjórnarskipunarlögum, eða þá er hægt að fara leiðina sem eru lögð til hér um að ákveðið hlutfall þingmanna þurfi og svo þjóðaratkvæðagreiðslu.

Spurningin til hv. þingmanns er hvers vegna eigi að hafa þær tvær greinar í gildi. Skapar það ekki mikla ringulreið í þinginu að alltaf sé hægt að hafa það undir að hægt sé að hlaupa með breytingu á stjórnarskránni í þjóðaratkvæðagreiðslu? Hvers vegna að hafa (Forseti hringir.) þau tvö ákvæði í gildi?