141. löggjafarþing — 108. fundur,  21. mars 2013.

stjórnarskipunarlög.

641. mál
[14:18]
Horfa

Illugi Gunnarsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Fyrst hvað varðar einhvers konar lagaskrifstofu. Í ljósi þeirrar umræðu sem ég vakti hér upp um hvort hægt sé til dæmis að taka tillögu hv. þm. Oddnýjar Harðardóttur inn sem breytingartillögu — auðvitað er það þannig og mér hefur verið bent á það af vísum mönnum að löng hefð er fyrir því að menn hafa túlkað þetta allt mjög vítt og látið svona ýmislegt yfir sig ganga í þeim málum. Ég vil segja gott og vel, það er alveg eðlilegt og kannski ekki mikið við því að segja. Það er þó þannig að á þetta hefur verið bent áður og menn hafa velt fyrir sér hversu langt er hægt að ganga. Ég tel að þegar um er að ræða breytingar á stjórnarskrá, menn hafa leyft sér ýmsa ósiði og leyft sér að dansa á ýmsum gráum svæðum hér áður, þá verði menn að endurskoða það og horfa á þetta mál algjörlega út frá stjórnarskránni sjálfri sem fortakslaust kveður á um að þrjár umræður eigi að fara fram um hvert frumvarp áður en það verður að lögum.

Ég tel enn og aftur og hef fært fyrir því rök að tillaga hv. þm. Oddnýjar Harðardóttur og fleiri í þeim búningi sem hún kemur fram þar sem notað er orðalagið „eðlilegt gjald“ sem er eðlisbreyting frá því þegar talað er um „fullt gjald“ — að ekki hafi farið fram umræða um það áður í þessum búningi og því sé hægt að halda því fram, í það minnsta verður að bregðast við því og taka afstöðu til þess að ef það verður samþykkt og ef bætt verður við einungis einni umræðu, þ.e. þessi umræða og svo þriðja, hafi málið raunverulega í þeim búningi, þar sem þá er um að ræða annars vegar eina grein sem segir hvernig á að breyta stjórnarskránni og hins vegar grein um nýtt auðlindaákvæði, ekki hlotið þrjár umræður í þingsal og verði því að bæta við einni umræðu.

Ég bendi á það sem kom fram hjá Bjarna Benediktssyni heitnum, fyrrverandi forsætisráðherra, þar sem hann sagði að betra væri (Forseti hringir.) að menn hefðu vaðið fyrir neðan sig og vísi slíkum tillögum frá.