141. löggjafarþing — 108. fundur,  21. mars 2013.

stjórnarskipunarlög.

641. mál
[20:16]
Horfa

Ásbjörn Óttarsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir andsvörin og spurningarnar.

Ef við snúum okkur fyrst að auðlindaákvæðinu. Það er alveg kristaltært í mínum huga að ef við ætlum að fara að taka umræðu úr ræðustól Alþingis um hvernig auðlindaákvæðið á að vera þá verður að fresta kosningunum um eitt ár, það er ekki flóknara en svo í mínum huga. Það er bara þannig ef engin efnisleg umræða hefur átt sér stað á milli stjórnar og stjórnarandstöðu um nýjasta útspilið sem var hjá meiri hluta stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar, inni í nefndinni. Hv. þingmaður veit það jafn vel og ég að við munum ekki komast að niðurstöðu um það hér í ræðustól.

Ég nefndi bara eitt lítið orð sem var breytt. Það var: Gegn „fullu“ gjaldi, það stóð fyrst í tillögunum, sem reyndar er í breytingartillögu hv. þm. Margrétar Tryggvadóttur, eða gegn „eðlilegu“ gjaldi. Og búið er að fara yfir það hér. Ef haft væri: Gegn „fullu“ gjaldi, þá mætti ekki vera með strandveiðar, byggðakvóta, línuívilnun o.s.frv. Hv. þingmaður sem er löglærður veit það auðvitað mun betur en ég að eitt orð skiptir höfuðmáli í dómaframkvæmd og framkvæmd á stjórnarskránni. Það er ljóst í mínum huga.

Ég sé framvindu málsins á eftirfarandi hátt eins og ég kom inn á í ræðu minni: Ef við mundum halda okkur við efni frumvarpsins, bara efni frumvarpsins, tilgang þess og eins og mælt var fyrir því, þá tel ég að við getum leyst málið. En hafi einhverjir aðrir hv. þingmenn hugmyndir um að skemma málið í pólitískum loddaraskap til að geta nýtt sér það inn í kosningabaráttuna, þá þeir um það. Þeir ganga alveg að því vísu.

Það hefur verið reynt að ná sátt um málið. Hæstv. forseti hefur staðið sig einstaklega vel og reynt að koma vitinu fyrir menn en það hefur ekki gengið og mun ekki ganga nema við tökum þessa hluti á þeim grunni, það er að minnsta kosti mín skoðun og ég kalla þá eftir því ef mér yfirsést eitthvað gagnvart þeim hlutum. Við verðum að ræða hlutina eins og þeir eru ef við viljum leysa þá.