141. löggjafarþing — 108. fundur,  21. mars 2013.

stjórnarskipunarlög.

641. mál
[20:18]
Horfa

Höskuldur Þórhallsson (F) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir svörin.

Mig langar til að rifja upp söguna. Árið 2007 lagði þingmaður Framsóknarflokksins fram tillögu um að sett yrði auðlindaákvæði inn í stjórnarskrána. Sá þingmaður gerði það á þeim forsendum að það hefði verið í stjórnarsáttmála þáverandi stjórnvalda, Framsóknarflokks og Sjálfstæðisflokks. Því miður varð það ekki að veruleika og ég verð að segja eins og er að ég hefði viljað að minn flokkur hefði staðið betur í lappirnar á þeim tíma.

Nú er ég kannski ekki alveg sammála hv. þingmanni að ef við ætlum að taka upp umræðu um þetta þurfi að bíða í eitt ár eins og hann lýsti eða ég skildi hann að minnsta kosti þannig. En nóg um það.

Mig langar til að víkja að öðru. Við höfum átt ánægjulegt samstarf í fjárlaganefnd. Við fengum til umfjöllunar breytingar sem sneru að því ákvæði stjórnarskrárinnar sem segir að fjárstjórnarvaldið sé hjá Alþingi. Þetta er mjög mikilvægt ákvæði. Lagt var til í þeim breytingartillögum sem lagðar voru á borðið fyrir okkur að hvaða ráðherra sem væri gæti sótt um aukaheimildir eða einhvers konar undanþágur frá fjárlögum. Það var breyting frá því sem stjórnlagaráðið hafði lagt til að aðeins fjármálaráðherra gæti komið og óskað eftir slíkri heimild. Fjárlaganefndin breytti því og ég tel það rétt og gott skref vegna þess að við þurfum nauðsynlega að fá aga inn í fjárlög ríkisins. Ég veit að við hv. þingmaður erum sammála um það, við höfum flutt margar ræður um það. Ágætt væri að fá (Forseti hringir.) aðeins komment á þá tillögu sem við fórum yfir í fjárlaganefnd.