141. löggjafarþing — 108. fundur,  21. mars 2013.

stjórnarskipunarlög.

641. mál
[21:24]
Horfa

Pétur H. Blöndal (S) (andsvar):

Frú forseti. Hv. þingmaður kom ekki inn á tillögu mína að lausn, ég er svona frekar lausnamiðaður (Gripið fram í: Já.) og reyni að finna lausnir þar sem ég mögulega get. Ég hef til dæmis flutt hugmynd um breytingu á 79. gr. sem við erum að ræða. Við erum bara ræða breytingu á 79. gr. og það væri ágætt ef menn takmörkuðu sig við það og væru ekki að breyta stjórnarskránni út og suður og jafnvel hverju sem er. Ef menn gætu treyst því að hér væri bara rædd breyting á 79. gr. og markmiðið væri að hægt væri að vinna með stjórnarskrána á næsta kjörtímabili án þess að bíða til loka kjörtímabilsins held ég að menn ættu flestir að geta sæst á það.

Hættan er sú að ef ekkert gerist og þetta mál deyr drottni sínum stöndum við allt kjörtímabilið næsta og bíðum eftir lokum þess til að geta breytt einhverju í stjórnarskránni. Þannig verður málið. Ég er ansi hræddur um að lítið fari fyrir þeirri feiknarlegu vinnu sem unnin hefur verið og þeirri feiknarlegu þekkingu sem komin er um breytingar á stjórnarskrá.