141. löggjafarþing — 109. fundur,  22. mars 2013.

stjórnarskipunarlög.

641. mál
[16:49]
Horfa

Mörður Árnason (Sf) (andsvar):

Forseti. Ég vil nú byrja á að biðjast afsökunar á því að ryðjast skyndilega og óvænt inn í málþófsumræður hv. þingmanna sem auðvitað hafa hér vernd þingskapa og þeir hafa ánægju af hvor við annan, þessir tveir, og síðan aðrir á eftir.

En mér leikur forvitni á að fá að vita frá hv. þingmanni, varaformanni Framsóknarflokksins, hvað það er nákvæmlega sem greinir hann og Framsóknarflokkinn, sem meðal annars auglýsir núna að sameign þjóðarinnar á náttúruauðlindum verði tryggð, frá því ákvæði sem við erum að ræða um. Þegar ég les stefnu Framsóknarflokksins sé ég ekki betur en að hún speglist nokkurn veginn nákvæmlega í því ákvæði sem við erum að tala um.

Ég heyri að þingmaðurinn telur að jafnræðisprinsippið í ákvæðinu sé svo hættulegt að ekki verði skilgreindir þeir brýnu almannahagsmunir sem hægt sé að nota til að úthluta byggðakvóta. Er það það sem hann er hræddur um? Er eitthvað annað sem hann er hræddur um í því? Ég get fullvissað þingmanninn um að þetta er ekki svona hugsað og þetta leiðir það ekki af sér.

Þingmaðurinn talar um venjulega hagnýtingu. Hann nefndi það að vísu einhverju öðru orði en það var það sem hann átti við, hina venjulegu hagnýtingu. Þingmaðurinn veit alveg eins og ég að þessi orð eru tekin beint úr hæstaréttardómi um 1998-lögin. Við hvað er þingmaðurinn hræddur þar? Það er átt við að eignarráð manna á jörðum dugi til hinnar hefðbundnu hagnýtingar og ekki til einhverrar annarrar hagnýtingar. Í dómnum er fjallað, eins og þingmaðurinn auðvitað veit, um það hvort landeigandi hafi átt rétt á jarðvegi úr göngum sem boruð voru í landi hans. Hæstiréttur komst að því að það væri ekki venjuleg hagnýting og dæmdi honum það ekki sem hann sóttist eftir.

Hvað telur þingmaðurinn svona hættulegt við þetta orðalag?