141. löggjafarþing — 111. fundur,  26. mars 2013.

endurskoðendur.

664. mál
[21:51]
Horfa

Pétur H. Blöndal (S):

Frú forseti. Er það virkilega svo að þau mál, sem hefur náðst um góð samstaða í hv. efnahags- og viðskiptanefnd, eigi að fara í gegn án þess að það sé framsögumaður, enginn sem mæli fyrir málinu, enginn sem lesi frumvarpið eða fari í gegnum um hvað það fjallar?

Þessi mál eru flest þannig að þau eru tekin úr stærri frumvörpum frá hæstv. ríkisstjórn sem hún lagði fram og eru talin vera þau ákvæði í viðkomandi frumvörpum sem nauðsynlegt er að færa í lög núna fyrir þinglok. Mér finnst, frú forseti, ekki nógu gott að þegar svona góð samstaða næst um málið sé meiningin að málin fari umræðulaust í gegnum 1. umr., þau séu ekki einu sinni rædd. (Forseti hringir.)

(Forseti (ÁRJ): Forseti vill upplýsa hv. þingmann um að það er búið að mæla fyrir þessum málum, þetta mál er í 2. umr. þannig að það er búið að mæla fyrir því. Það er því einhver misskilningur á ferðinni.)

Það er búið að mæla fyrir málum ríkisstjórnarinnar, en ekki fyrir málum nefndarinnar, þannig að þetta er 1. umr. um málið. Hér er verið að innleiða tilskipanir frá Evrópusambandinu um hæfi lögbærra yfirvalda í Ástralíu og Bandaríkjunum samkvæmt tilskipuninni gagnvart endurskoðendum. Ég er sem sagt með á þessu og um frumvarpið var góð samstaða í nefndinni.