141. löggjafarþing — 112. fundur,  27. mars 2013.

stjórnarskipunarlög.

641. mál
[14:18]
Horfa

Pétur H. Blöndal (S) (andsvar):

Herra forseti. Ég vil byrja á að þakka hv. þm. Árna Páli Árnasyni fyrir ágæta ræðu og að mörgu leyti ágæta breytingartillögu. Eins og hann gat um hef ég flutt mál nr. 19 þar sem þröskuldurinn er hærri. Hann er 50% hjá þjóðinni, af því að ég hef trú á því að þjóðin hafi áhuga á stjórnarskránni og mæti, en hann er lægri hjá Alþingi, þ.e. 40 þingmenn. Hér er gert ráð fyrir 2/3 greiddra atkvæða, ekki allra atkvæða. Það eru þá 2/3 þeirra þingmanna sem eru í þingsal í það skiptið.

Þá vil ég spyrja hv. þm. Árna Pál Árnason hvort það hafi komið til greina að þeir nefndu fjöldann sem þyrfti að greiða þessu atkvæði í þingsal eins og ég var með. Ég var með 40 þingmenn. Ef það er lítil mæting í þingsal, málið sett á dagskrá á þeim tíma sem er lítil mæting — forseti ræður því — getur dugað að hafa fáa þingmenn. Ef 32 eru mættir duga 22 til að samþykkja stjórnarskrárbreytingu og mér finnst það mjög veikt. Ég spyr hv. þingmann hvort það hafi komist til tals að það þurfi 40 eða 42 þingmenn til að samþykkja það til að ná fram enn meiri sátt á þingi um málið.

Svo er það að þetta skuli vera til bráðabirgða. Það er dálítið undarlegt að menn geti valið á þessu tímabili hvort þeir vilja geta breytt stjórnarskránni svona eða hinsegin, þá væntanlega eftir því hvort þeir telji þjóðina hafa áhuga á málinu eða ekki, eða hvort bara tvö þing hafi áhuga á því.

Ég spyr sem sagt að þessu með fjölda þingmanna í þingsal og af hverju menn eru með þetta sem bráðabirgðaákvæði.