141. löggjafarþing — 114. fundur,  28. mars 2013.

þingfrestun.

[01:48]
Horfa

Illugi Gunnarsson (S):

Virðulegi forseti. Ég hef það hlutverk fyrir hönd okkar hv. þingmanna að óska virðulegum forseta alls hins besta og þakka samstarfið við hana.

Það má ljóst vera að það kjörtímabil sem nú er að líða hefur verið róstusamt, en sennilega er of snemmt að fella einhverja aðra dóma um kjörtímabilið, sagan verður hér að ráða. En fram undan eru kosningar og ég vil taka undir með virðulegum forseta að það er orðsins brandur sem mestu mun ráða, sannfæringarkraftur þingmanna, hvernig okkur tekst til að tala til kjósenda og hver til annars. Ég vil líka nota tækifærið og taka undir með virðulegum forseta að það er um virðingu okkar allra að tefla hvernig okkur tekst til.

Þá vil ég segja að mér hefur fundist virðulegur forseti hafa gegnt sínu virðulega embætti af stakri prýði. Almættið alviturt taldi skynsamlegt að láta Ástu R. Jóhannesdóttur fylgjast með og stýra deilum okkar þingflokksformannanna og ég held að það hafi verið skynsamlegt því að það hefur kostað heilmikla þolinmæði oft og tíðum að sitja með okkur í þingflokksherberginu þar sem við höfum tekist á um þingstörfin. Ég get sagt það, og ég held að ég tali fyrir hönd okkar þingflokksformanna allra sérstaklega, að mörg deilan og margt það sem við tókumst á um, leystist vegna þess að forseti sýndi einmitt eins og hún nefndi í ræðu sinni að hún var tilbúin til að hlusta á sjónarmið beggja aðila, bæði stjórnar og stjórnarandstöðu, og finna góða lausn á málum.

Ásta Ragnheiður Jóhannesdóttir sem nú hverfur af þingi, eins og fram hefur komið, kom fyrst inn sem varamaður 1987 en hefur setið á þingi allt frá 1995. Það er einmitt í velferðar- og almannatryggingamálum sem Ásta Ragnheiður lagði mikið af mörkum. Það liggur mikið starf eftir virðulegan forseta í þinginu.

Ég vil því, virðulegur forseti, óska þér alls hins besta í þeim störfum sem þú hyggst taka þér fyrir hendur í framtíðinni. Ég vil óska fjölskyldu þinni alls hins besta og ég verð líka að fá að nota tækifærið um leið og óska starfsmönnum þingsins, fyrir hönd okkar þingmanna, alls hins besta og þakka þeim fyrir þolinmæðina og umburðarlyndið við okkur þingmenn í allri þeirri vinnu sem hefur þurft að vinna til að koma fram málum.

Hv. þingmenn. Ég vil biðja ykkur að rísa úr sætum og með því taka undir kveðjur mínar til Ástu Ragnheiðar Jóhannesdóttur. [Þingmenn risu úr sætum.]

Virðulegur forseti. Ef þingsköp leyfa vil ég afhenda yður þennan blómvönd.