142. löggjafarþing — 3. fundur,  11. júní 2013.

breytingar á stjórnarskrá.

[13:44]
Horfa

forsætisráðherra (Sigmundur Davíð Gunnlaugsson) (F):

Virðulegur forseti. Það er alveg hárrétt sem hv. þingmaður bendir á, ég náði ekki að svara öllum spurningum hv. þingmanns áðan og reyni að bæta úr því nú.

Fyrst að spurningunni um hvort ég muni greiða götu málsins, þá er það nú svo, og ég veit að hugsanlega eru þetta viðbrigði frá fyrri ríkisstjórn, að forsætisráðherra ræður því ekki hver framgangur ákveðinna mála er hér í þinginu. Þingið ræður því og að sjálfsögðu heldur forseti þingsins utan um dagskrárvaldið. (Gripið fram í.) Ég þakka samt það traust sem mér finnst birtast í þeirri hvatningu sem ég fæ hér til þess að stýra ekki aðeins flokknum heldur þinginu líka í krafti formennsku í Framsóknarflokknum og þess að vera forsætisráðherra. Ég hef hugmynd um hvaðan fyrirmyndin er komin.

Þá að framhaldi stjórnarskrármálsins almennt, því er lýst í stjórnarsáttmála. Við erum eindregið þeirrar skoðunar, báðir stjórnarflokkar, að ástæða sé til þess að halda áfram vinnu við endurskoðun stjórnarskrárinnar, nýta þá vinnu sem hefur verið unnin undanfarin ár og halda áfram að bæta við hana bæði í þinginu og með aðkomu almennings.