142. löggjafarþing — 3. fundur,  11. júní 2013.

ráðstafanir í ríkisfjármálum.

1. mál
[14:58]
Horfa

Pétur H. Blöndal (S) (andsvar):

Herra forseti. Til þess að byrja nýtt kjörtímabil með jákvæðni vil ég þakka hv. þingmanni fyrir þann vísi að samstarfi sem hann bauð fram í því að einfalda virðisaukaskattskerfið. Ég held að það sé verkefni, ég held að það sé verkefni Alþingis að einfalda virðisaukaskattskerfið og gera það rökréttara þannig að minni hætta sé á undanskotum.

Þegar seld er pakkaferð með gistingu, mat, hundasleðaferð og laxveiðileyfi o.s.frv., er undir hælinn lagt hvernig fer, þetta eru mörg þrep sem þarf að leggja á. Kannski kostar maturinn akkúrat þúsundkall, gistingin mikið, hundasleðaferðin mjög mikið af því að hún er skattfrjáls o.s.frv. Hvernig ætla menn að segja að þetta séu einhver svik? Það er ekki hægt. Hver ætlar að segja að maturinn eigi að kosta meira en þúsundkall?

Við verðum að einfalda skattkerfið og gera það rökréttara. Ég fagna því að hv. þm. Oddný Harðardóttir ætli að taka undir með okkur í því að einfalda kerfið. Það sem við erum að gera hér er einmitt einföldun. Við erum að kippa burt skattþrepi sem mundi fara inn í lögin í haust en mun ekki gera það ef þetta frumvarp verður ofan á.

Svo getum við rætt um hvort ferðaþjónustan sé ekki í færum til að borga hærri virðisaukaskatt. Þá þurfum við að gera það með löngum fyrirvara þannig að menn séu ekki búnir að selja ferðirnar og verðum að gera það í ákveðnu samráði við greinina og fara í gegnum umsagnarferli og annað slíkt þannig að við getum unnið saman að því að láta þessa þjónustu dafna. Hún hefur vaxið mjög mikið, þökk sé tveimur eldgosum sem negldu nafn Íslands inn í huga fjölda manna sem biðu á flugvöllum úti um allan heim. Þau áhrif munu hverfa og þá skiptir skatturinn máli.