142. löggjafarþing — 3. fundur,  11. júní 2013.

ráðstafanir í ríkisfjármálum.

1. mál
[16:19]
Horfa

Katrín Júlíusdóttir (Sf):

Virðulegi forseti. Ég botna ekkert í því í hvaða leiðangri þessi nýja ríkisstjórn er. Áður en menn höfðu kynnt stjórnarsáttmála eða hvernig ný ríkisstjórn yrði samsett sá nýr forsætisráðherra ástæðu til að stíga fram í fjölmiðlum og lýsa því yfir að hann væri búinn að sjá og fá stórkostlegar nýjar upplýsingar um allmiklu verri stöðu ríkissjóðs en fráfarandi ríkisstjórn hefði nokkurn tíma kynnt.

Fengum við einhvern tíma að vita eða heyra frá núverandi forsætisráðherra í hverju þessar nýju upplýsingar fælust? Nei. Hvers vegna? Vegna þess að það voru og eru engar nýjar upplýsingar sem kollvarpa stöðu ríkissjóðs eða þeim upplýsingum sem menn höfðu áður fengið og eru og hafa alltaf verið öllum aðgengilegar. Það er ekki hægt að halda svona upplýsingum leyndum, það er ekki hægt. Ekki byrjaði því nýr forsætisráðherra vegferð sína vel.

Þá fara menn af stað í að reyna að finna eitthvað til að fylla upp í þá mynd sem nýr forsætisráðherra reyndi að teikna upp fyrir þjóðina sem afsökun og átyllu fyrir því að koma með snautlegar tillögur sem byggðu á kosningaloforðum þeirra nú strax á sumarþingi, í stað þess að gera eins og menn lofuðu í aðdraganda kosninga að koma með tillögur strax, efndir í sumar, engar nefndir. Það sögðu menn þá. Niðurstaðan er allt önnur.

Virðulegi forseti. Í gær fór nýr fjármála- og efnahagsráðherra í ræðu sinni undir stefnuræðu forsætisráðherra yfir það hvaða liðir það eru sem menn hafa þarna átt við. Þar er um að ræða, eins og ég fór yfir í andsvari áðan, Íbúðalánasjóð, 13 milljarðar. Um það er fjallað í fjárlagafrumvarpinu, um það var ítarlega fjallað við afgreiðslu fjárlagafrumvarpsins. Engar nýjar upplýsingar þar á ferð, engar. Um þetta var rætt. Þar hefðu menn getað fylgst með umræðu í þinginu um fjárlög og vitað allt um hvar það mál stóð.

Menn leyfa sér líka að tína til 6 milljarða, sem hugsanlega gæti orðið, ef farið verður fram úr í ákveðnum fjárlagaliðum hjá stofnunum ríkisins eða hjá ráðuneytum. Það er verkefni ráðherra, fagráðherra, á hverjum tíma að gæta að því að vera innan ramma fjárlaga. Það er ekki nýtt verkefni. Það er ekki nýtt verkefni að því sé flaggað að ef menn fari ekki varlega fari þeir hugsanlega fram úr. Það gerðist líka á síðasta ári, þarsíðasta ári, árinu þar á undan, 1995, 1996, það gerist á hverju einasta ári. Engar nýjar upplýsingar þar á ferð.

Hæstv. fjármála- og efnahagsráðherra tínir líka til að mögulega komi lægri tala út úr arðgreiðslum og söluhagnaði á þessu ári. Já, ef menn gera ekki neitt, ef menn leggja sig ekkert fram við að selja þær eignir sem heimildir eru fyrir í fjárlögum þá gæti það hugsanlega gerst. En árinu er ekki lokið og við erum með langan lista af eignum til að selja sem geta myndað þann hagnað. Eitt dæmi get ég nefnt, það er til dæmis búið að ganga núna frá sölu á landi í Skerjafirði og fleiri eignir bíða sölu sem ríkið getur selt til að ná upp í þessa fjármuni. Ég ætla rétt að vona að hæstv. fjármálaráðherra sé ekki að boða slíkt með því að halda þessu fram og taka þá tölu til inn í þessa upptalningu að hann ætli nú að leggja hendur í skaut og gera ekki neitt til að uppfylla þær væntingar sem menn hafa til sölu á eignum ríkisins sem mikilvægt er og vert er að selja.

Annað nefnir hann líka, 4 milljarða sem gætu út af breyttum forsendum og breyttum hagvaxtarspám gert breytingar á tekjuáætlunum hins opinbera. 4 milljarðar, virðulegi forseti, og þetta leggja menn til grundvallar, þessa 27 milljarða leggja menn til grundvallar hinum stórkostlegu nýju upplýsingum sem forsætisráðherra steig fram með í maí. Þetta er snautlegt, virðulegi forseti, og er hinni nýju ríkisstjórn ekki til sóma.

Virðulegi forseti. Þegar við gengum til kosninga var algjörlega ljóst af hálfu stjórnarflokkanna að ríkisfjármálin væru viðkvæm. Við töluðum um það hvar sem við komum, við töluðum um það í fjölmiðlum, við töluðum um það á kosningafundum, við töluðum um það í þessum þingsal að við værum ekki búin að ná þeim árangri að geta lokað fjárlagagatinu endanlega og stöðvað þannig skuldasöfnun ríkissjóðs. Það var ekki þokkafullt mál að fara með inn í kosningar, það mál að ætla að loka fjárlagagatinu og stöðva skuldasöfnun ríkissjóðs og fara að greiða niður skuldir þannig að við gætum farið að nota 90 milljarðana sem við greiðum í vexti árlega í önnur og þarfari verkefni. En við gerðum það engu að síður. Við fórum inn í kosningar með þetta að leiðarljósi. Hvers vegna? Vegna þess að þetta var veruleikinn, vegna þess að þetta er veruleikinn.

Núverandi stjórnarflokkar komu og stigu hins vegar fram með allt annan veruleika, teiknuðu upp allt aðra mynd fyrir fólkið í landinu, vitandi betur, lofandi öllu fögru, milljarðatugum, jafnvel milljarðahundruðum sem áttu að koma til fólksins í landinu strax í sumar, var ítrekað sagt, til heimilanna í landinu í niðurfærslur skulda. Ekkert bólar á því, ekkert. Menn vissu þetta í aðdraganda kosninga og grípa núna til svona eftiráskýringa sem eru engum boðlegar.

Virðulegi forseti. Þess vegna botna ég heldur ekkert í því og skil ekki það mál sem við erum að ræða, vegna þess að þetta er fyrsta mál nýrrar ríkisstjórnar, þ.e. að lækka eða draga til baka ákvörðun um að hækka virðisaukaskatt á ferðaþjónustu aftur til þess sem hann var árið 2007, úr 7% í 14%, að lækka hann aftur til þess sem hann var árið 2007. Þetta er fyrsta mál ríkisstjórnarinnar en því fylgir engin áætlun, af því að maður hefði ætlað að þetta væri hluti af einhverri áætlun, frekari áætlun um ráðstöfun í ríkisfjármálum. Þetta passar í engu við þá mynd sem menn reyna að teikna upp af stöðunni í ríkisfjármálum. Menn segja eitt og vinna svo gegn því á borði.

Virðulegi forseti. Mér finnst að hæstv. fjármálaráðherra og ný ríkisstjórn verði að útskýra betur fyrir okkur í hvaða leiðangri þeir eru. Það er ekki hægt að koma á annan veginn og segja: Hér eru ríkisfjármálin, það stefnir í mikið óefni í ríkisfjármálunum. En svo er fyrsta mál þeirra á þinginu að lækka tekjustofna ríkisins. Sú aðgerð sem hér birtist er algjörlega á skjön við þann málflutning.

Við verðum og hljótum að kalla eftir því að það verði útskýrt betur fyrir okkur í hvaða leiðangri menn eru. Hvernig eiga tekjur að koma til ríkisins? Hvað felst í þeim mótvægisaðgerðum sem boðaðar eru? Þær fylgja ekki með í þingmálum, þær er hvergi að sjá. Það er bara talað um þær eins og svo margt annað sem nýja ríkisstjórnin gerir, hún talar og talar en það kemur ekkert. Hvaða mál erum við að ræða í dag, fyrsta mál í þinginu? Það er að lækka tekjustofna ríkisins, ríkisstjórn sem er búin að lofa milljarðatugum og milljarðahundruðum.

Þegar menn stíga hér fram og tala um ábyrga efnahagsstjórn er ekki skrýtið að menn klóri sér í höfðinu þegar þetta er síðan fyrsta málið á dagskrá. Ég er engin sérstök áhugakona um skatta, að skattleggja eða hækka skatta. En menn gripu til ráðstafana í ríkisfjármálunum til að loka fjárlagagati. Það sem beið síðustu ríkisstjórnar voru ekki 3,7 milljarða kr. halli heldur 216 milljarða kr. halli. Á því varð síðasta ríkisstjórn að vinna, að loka því gati. Við náðum því í fjárlagafrumvarpinu á þessu ári niður í 3,7 milljarða, sem er ágætisárangur þó að við hefðum auðvitað viljað hafa náð að ganga lengra til að stöðva skuldasöfnunina endanlega. En það vissu allir að við vorum ekki búin að því. Þess vegna gripu menn á síðasta kjörtímabili til ýmissa breytinga á skattkerfinu til að loka því gati þannig að við gætum farið að stoppa skuldasöfnunina. Það var ekki gert af því að við værum sérstaklega á móti einstaka atvinnugreinum sem þurftu að þola einhverjar hækkanir eða að við værum sérstaklega fylgjandi sköttum eða fylgjandi einhverri sérstakri skattpíningu, það var ekki þannig. Þetta var gert til að loka fjárlagagatinu svo að landið gæti farið að rísa á ný. Það var áætlun var í gangi og þetta var liður í henni.

Við vorum með það markmið að loka endanlega fjárlagagatinu 2014, ná jákvæðum heildarjöfnuði og byrja að greiða niður skuldir. Því vil ég spyrja nýjan fjármála- og efnahagsráðherra, sem byrjar á því að koma með mál sem mun auka á halla ríkissjóðs núna strax á hans fyrsta ári í starfi: Liður í hvaða áætlun er þetta? Er þetta liður í þeirri áætlun eins og hún birtist mér að við munum ekki ná heildarjöfnuði og byrja að greiða niður skuldir ríkissjóðs fyrr en eftir mörg ár til viðbótar? Af því að allt sem birtist frá ríkisstjórninni bendir til þess, þó að menn síðan í orði kveðnu segi annað. Þetta vinnur allt í kross og gegn hvert öðru það sem menn segja og gera. Þess vegna hljótum við að kalla eftir því hér í þinginu að fá upplýsingar um þetta. Liður í hverju er þessi aðgerð sem við erum að fjalla um hér? Hvernig eigum við að geta tekið afstöðu til hennar öðruvísi? Ég lagði fram frumvarp um að hækka virðisaukaskatt á ferðaþjónustuna, ég gerði það ekki af einhverri ánægju eða af því að mig langaði að skattpína ferðaþjónustuna sérstaklega, heldur voru það ráðstafanir í ríkisfjármálum til að loka ákveðnu fjárlagagati sem við þurftum að loka til að stöðva skuldasöfnun.

Virðulegi forseti. Þess vegna er það krafa mín að nýr fjármálaráðherra svari því: Hefur ný ríkisstjórn vikið frá þeirri áætlun um að ná hér heildarjöfnuði á næsta ári? Við verðum að fá svar við þeirri spurningu. Að öðrum kosti horfum við fram á þá stöðu að í stað þess að borga 90 milljarða í vexti, sem fara ekki til heimilanna í landinu á meðan, velferðarkerfisins eða menntakerfisins, þá geta þeir orðið 100, 110, 120. Hver er leiðangurinn, virðulegi forseti? Þessu verða menn að svara í því samhengi. Menn geta ekki komið með eitt svona einangrað mál og sagt: Þetta er bara svona til að senda góð skilaboð. Góð skilaboð frá ríkisstjórninni væru að segja: Við ætlum að standa við þá ríkisfjármálaáætlun sem gerð hefur verið. Við ætlum að halda áfram á þeirri braut að stöðva skuldasöfnun ríkissjóðs þannig að landið geti farið að rísa og við farið að létta af gjaldeyrishöftunum og farið að sjá alvöruvöxt í íslensku samfélagi. Það væru jákvæð skilaboð út í samfélagið, alvöru jákvæð skilaboð.

Virðulegi forseti. Ég óska eftir því að hæstv. ráðherra svari spurningunni áður en lengra er haldið. Við fáum þá að vita á hvaða leið menn eru, vegna þess að að öðrum kosti munum við framlengja í vanda okkar Íslendinga. Grundvöllur þess að við Íslendingar getum farið að spretta úr spori er að við náum jöfnuði í ríkisfjármálunum. Það er grundvöllur alls. Það er ekki hægt að taka á þessu með neinni léttúð. Stærsta verkefni okkar stjórnmálamanna núna er ábyrgð í ríkisfjármálunum og greiða niður þessar skuldir. En ríkisstjórnin virðist ætla að snúa af þeirri braut. Að minnsta kosti ber þetta mál þess merki.