142. löggjafarþing — 3. fundur,  11. júní 2013.

meðferð einkamála.

2. mál
[21:01]
Horfa

innanríkisráðherra (Hanna Birna Kristjánsdóttir) (S) (andsvar):

Forseti. Ég verð nú að viðurkenna að mér finnst hv. þingmaður vera að búa til mál úr einhverju sem er augljóslega ekki neitt mál. Það hefur verið ágæt samstaða um það og hv. þingmaður kom inn á það í ræðu sinni að hún teldi málið gott. Við treystum dómstólum fyrir því. Við veitum hér dómurum heimild til þess að forgangsraða í þágu þessara mála. Við erum ekki með annars konar inngrip í það. Hér er heimild fyrir dómara til þess að taka þessi mál og forgangsraða í þágu þeirra og reyna að hraða þeim í gegnum dómskerfið. Að treysta ekki dómstólunum til þess að vinna að því finnst mér dálítið sérkennilegt. Mér finnst það líka sérkennilegt, hv. þingmaður, í ljósi umræðunnar sem verið hefur um málið.

Við hljótum að átta okkur á því þingmenn (Gripið fram í.) að þegar við ræðum um að gefin sé heimild til þess að hraða ákveðnum málum sem við teljum mikilvæg og ég held að allir séu sammála um að eru mikilvæg til þess að ljúka ákveðnu uppgjöri hér, þá getur það — ég vona sannarlega að það komi ekki niður á málum sem eru mikilvæg. En ég treysti dómstólunum fullkomlega til þess að forgangsraða þannig að það komi ekki niður á öðrum málum með þeim hætti sem hér er lýst.

Hæstv. forseti. Ég verð að segja að mér finnst menn vera að reyna að búa til átök um mál sem ég tel að hljóti að geti verið góð sátt og samstaða um. Ég hlýt að fullvissa hv. þingmann um að dómstólum hér á Íslandi er fullkomlega treystandi til að forgangsraða og hraða málum þannig að það verði ekki látið koma niður á málum sem hv. þingmaður nefndi.