142. löggjafarþing — 3. fundur,  11. júní 2013.

meðferð einkamála.

2. mál
[21:11]
Horfa

Ögmundur Jónasson (Vg) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég var að lýsa því að þessi mál hefðu ekki verið í lagi. Ég var að lýsa því hvers vegna ég teldi að þau hefðu ekki verið í lagi. Það væri ekki vegna þess að dómstólarnir vildu ekki hraða framgangi málanna, heldur væri það vegna þess að málsaðilar sætu á málunum og vegna þess að undirbúningur málanna tæki langan tíma.

Ég sagði hins vegar um þetta frumvarp að mér fyndist það góðra gjalda vert. Ég tel að það geti ekki orðið til neins annars en góðs. Ég lýsti því yfir í upphafi míns máls að ég mundi styðja frumvarpið því að það getur ekki gert neitt annað en gott.

Ég gagnrýni það hins vegar pólitískt þegar hér er komið fram fyrir hönd ríkisstjórnarinnar og sagt að í þessu frumvarpi birtist forgangsröðun núverandi ríkisstjórnar til að taka á skuldavanda heimilanna. Það er það sem ég er að gagnrýna. Við skulum ræða þá pólitík.