142. löggjafarþing — 3. fundur,  11. júní 2013.

stjórn fiskveiða o.fl.

4. mál
[22:00]
Horfa

Páll Jóhann Pálsson (F):

Virðulegi forseti. Ég fagna þessu frumvarpi, það er löngu tímabært að leggja það fram. Eins og segir í greinargerðinni hefur mikill tími farið í að túlka verklagsreglur Siglingamálastofnunar og margt fólk unnið við það. Með einföldun á þessu kerfi munum við spara mikið, við munum jafnvel geta fækkað embættismönnum, því að mikil vinna hefur farið í að fara yfir þessi gögn.

Hvernig þróunin hefur verið í þessu kerfi frá upphafi — sú þróun er svipuð og verið hefur í tímans rás hjá íslenskum sjómönnum, menn hafa alltaf viljað stærri og stærri skip. Þeir byrjuðu á árabátum sem þróuðust yfir í stærri báta. Alveg eins hefur þetta verið í krókaaflamarkinu. Krókaaflamarkið í dag miðast við 15 brúttótonn og ef við lítum á þróunina, hvernig þessir bátar hafa stækkað, finnst mér líka að við ættum að taka inn í myndina hvað þeir eru búnir að veiða mikið. Þegar kerfið var sett á, hvað veiddu þeir mikið þá? Hver var hlutdeildin þá og hvað hefur hún vaxið mikið? Ætli það geti ekki bara verið svipuð þróun þar og með stækkunina. Þessir bátar í dag, þessar smíðareglur, að þeir skuli vera með svalir, skriðbretti og hvað þetta heitir allt saman — ég er með svona bát og þegar ég horfi á hann þarf ég að benda rétt aftur fyrir miðjan bát til að sýna fólki hvar báturinn endar. Þetta skilur ekki venjulegt fólk.

Með einföldun á reglum, með því að miða bara við mestu lengd — hvort það sé einfaldara að fara í þessa íslensku brúttótonnareglu eða Evrópureglu, ég skal ekki alveg segja til um það, við munum væntanlega skoða það í nefndinni. Mér finnst það ekki alveg passa að ef við ætlum að fara að breyta þessu núna að þá rúmi það ekki alla þá báta sem eru í kerfinu í dag. Sú stækkun sem menn eru að tala um er ekki svo mikil. Hún er ekki svo ýkjamikil í veiðigetu því að með svölum eru bátarnir í dag alveg í kringum 14 m. Breiðustu bátarnir í dag eru 4,60 m, þannig að ég tel það bara jákvætt að einfalda kerfið hvort sem við notum Evrópustaðal eða íslenskan staðal.

Þessi þróun í íslenska smábátaflotanum hefur orðið til þess að íslenskar skipasmíðastöðvar eru að byggja skip og flytja þau út. Það er mikið að gera og mér finnst að við ættum að treysta á þessar skipasmíðastöðvar — 15 m skip, hvað finnst þeim eðlilegt, hvernig vilja þeir hanna slíkt skip? Samkvæmt Evrópureglum spilar dýptin inn í, dekkhæð. Eftir því sem dekkhæð er hærri þá stækka stækkanir í rúmmetrum, en eftir því sem dekkhæðin er hærri eru skipin öruggari. Ef við ætlum að hanna skip í dag hljótum við að taka tillit til þess hvernig við ætlum að nota þau. Við hljótum líka að hugsa, þegar við hönnum svona skip, hvernig íslensk fiskikör staflast best og hvernig þetta nýtist best. Ég held því að það sé verk nefndarinnar að skoða þetta og það með þeim íslensku skipasmíðastöðvum sem hafa mikla reynslu af því að smíða þessi skip.

Við undirbúning frumvarpsins var leitast við að sætta andstæð sjónarmið, annars vegar Landssambands smábátaeigenda, sem alla tíð hefur barist á móti þessu, og hins vegar eigenda stærstu línubáta með beitningavél um borð. Ég vil vekja athygli á því að aðeins hluti af stærstu línubátunum í þessu kerfi er með beitningavél. Flestir nýjustu bátarnir róa með bala og fiska fyrir vinnslur sem vinna í ferskt, þar sem sköpuð er dýrasta varan. Þessar vinnslur eru úti á landi. Við getum nefnt Bolungarvík, Húsavík, Hornafjörð, Grindavík. Skipin eru hluti af þessum vinnslum. Það er fólk í landi sem treystir á að fá fisk af þessum skipum og kaupendur úti í heimi sem treysta á að fá ferskan fisk. Þannig náum við að halda verði háu. Ef við förum í 15 m, samþykkjum það, skulum við ekki festast í því að fara að setja einhverjar kröfur um að dekkhæðin megi ekki vera nema svo og svo mikil og skipin ekki breiðari en þetta eða hitt. Treystum þeim fagmönnum sem eru að smíða skip, þeir vita hvernig hagstæðast er að hanna 15 m skip. Ég treysti því að við munum vinna faglega að málum í nefndinni. Ég hlakka til.