142. löggjafarþing — 4. fundur,  12. júní 2013.

Landsvirkjun og rammaáætlun.

[15:36]
Horfa

Árni Páll Árnason (Sf):

Virðulegi forseti. Ég vildi í þessari umræðu eiga orðastað við hæstv. fjármálaráðherra um umgjörð rekstrar Landsvirkjunar og umgjörð orkufreks iðnaðar á nýju kjörtímabili. Við höfum breytt regluverkinu á undanförnum árum. Ísland er búið að ganga í gegnum mikla erfiðleika í efnahagsmálum, en við höfum forðast þau örlög sem margar þjóðir hafa lent í; að gefa aðgang að auðlindum okkar til áratuga til að reyna að komast út úr efnahagskreppu. Við höfum þvert á móti aukið arðsemina af nýtingu auðlinda okkar og markað skýra stefnu um að það verði alvöru arður af nýtingunni. Í grunninn eigum við bara val um tvennt: Viljum við virkja með tapi þess vegna til að búa til störf, eða er áherslan á arðsemi í forgrunni?

Við höfum breytt regluverkinu núna þannig að við höfum tekið pólitíkina út úr ákvörðunum um virkjunarkosti. Þessar ákvarðanir eru nú teknar af hálfu Landsvirkjunar á fullkomlega viðskiptalegum forsendum, það skiptir mjög miklu máli. Við upplifum nú harmsöguna í kringum Hellisheiðarvirkjun, bara svo eitt dæmi sé tekið af mistökum gengins tíma þar sem menn ruku til með of bröttum hætti. Við þekkjum líka dæmi um að ákvarðanir hafa verið teknar á pólitískum forsendum um að virkja á tilteknum tíma, eða að yfirlýsingar stjórnmálamanna hafi rýrt svo samningsstöðu ríkisins um orkuverð eins í tilviki Kárahnjúka. Alcoa vissi það fyrir fram að það yrði ráðist í verkefnið og voru þess vegna í yfirburðarstöðu í samningum við ríkið.

Það er líka mikilvægt að hafa í huga að nú hefur myndast um það samstaða meðal þeirra sérfræðinga sem vinna á samráðsvettvangi um aukna hagsæld að líta svo á að mikilvægt sé að setja arðsemi í forgrunn við nýtingu orkuauðlindarinnar. Þeir komast að þeirri niðurstöðu að virkjanir séu beinlínis vond leið til þess að leysa úr tímabundinni efnahagslegri niðursveiflu vegna þess tíma sem það tekur fyrir nýja virkjun að komast í gagnið þannig að hún kemst ekki í gagnið fyrr en við erum komin út úr niðursveiflunni.

Sérfræðingar telja líka að þetta sé vond leið vegna þess að álverð og hagvöxtur fylgist yfirleitt að og það dragi þess vegna úr arðsemi ef ákveðið er að virkja á tímum efnahagslægðar, betra sé að hugsa nýtingarstefnuna á arðsemisforsendum til lengri tíma. Nú eru þessar skýru reglur komnar.

Annar þáttur þessa regluverks er síðan rammaáætlunin. Það veldur okkur auðvitað áhyggjum að sjá yfirlýsingar nýrra ráðherra í upphafi nýs kjörtímabils. Það er auðvitað ekki þannig að hægt sé að taka upp rammaáætlun án þess að horfa á hina lögbundnu umgjörð sem um hana hefur verið sköpuð. Og ákvarðanir um að tína núna einstaka virkjunarkosti út án þess að þær rannsóknir sem mælt hefur verið fyrir um fari fram og flytja þá kosti yfir í nýtingarflokk er auðvitað pólitísk handaflsbeiting sem ekki á að eiga sér stað.

Alveg með sama hætti bera ráðherrar ábyrgð hvað varðar yfirlýsingar um einstaka samninga sem til greina koma um sölu orku.

Það er ákveðið áhyggjuefni þegar ráðherrar ganga fram fyrir skjöldu eins og hæstv. fjármálaráðherra hefur að sumu leyti gert og hæstv. iðnaðarráðherra enn frekar með yfirlýsingum um að til greina komi að Landsvirkjun semji við þá sem hyggja á byggingu orkufreks iðnaðar í Helguvík.

Ég ítreka að þetta snýst ekki um að ég sé á móti álveri í Helguvík. Ég er einfaldlega þeirrar skoðunar að það sé ekki hlutverk ráðherra sem standa eiga varðstöðu um arðsemi af auðlindinni að gefa grænt ljós á að tilteknir viðsemjendur séu sérstakir vildarvinir ríkisins og njóti velþóknunar ríkisstjórnarinnar og þar með gefa Landsvirkjun til kynna að það sé beinlínis ætlast til þess að samið sé við þessa aðila ef menn vilji vera í hlýju valdsins.

Hæstv. fjármálaráðherra hefur sagt að ef það verði niðurstaðan að ekki takist að ná samningum um orkuöflun til þessa verkefnis, munum við — hverjir erum við? — skoða það hvort einhverjir aðrir, eins og t.d. Landsvirkjun, gætu stigið inn í þessa mynd.

Í því felst óbein yfirlýsing um að hverfa frá markmiðinu um arðsemi sem grundvallarforsendu og í því felst óbeint fyrirheit um að ný sjónarmið verði höfð að leiðarljósi, með öðrum orðum; pólitísk stýring á því við hverja skuli semja en að ekki ráði almannahagur og hámarksarður fyrir auðlindina.

Því spyr ég hæstv. ráðherra: Deilir hann með mér því mati að arðsemin skipti öllu máli? Er hann tilbúinn að standa með okkur vörð um þá pólitísku sátt sem myndast hefur um arðsemi ofar öllu (Forseti hringir.) og að ákveða að pólitísk afskipti af ákvörðunum sem þessum (Forseti hringir.) eigi að heyra sögunni til?