142. löggjafarþing — 5. fundur,  13. júní 2013.

kaltjón og harðindi á Norður- og Austurlandi.

[11:22]
Horfa

Þórunn Egilsdóttir (F):

Virðulegi forseti. Ég vil byrja á því að nota tækifærið og þakka góðar móttökur hér á nýjum vinnustað og óska okkur öllum velfarnaðar í störfum.

Það er rétt sem hér hefur komið fram að náttúran hefur ekki unnið vel með bændum undanfarna mánuði og fagna ég þessari umræðu um málefni þeirra og vil þakka hv. þm. Haraldi Benediktssyni fyrir að hefja máls á þessu og fara yfir stöðuna. Þetta er þörf umræða.

Við þingmenn Norðausturkjördæmis höfum orðið vitni að og þekkjum erfiða stöðu fjölmargra bænda í kjördæminu, en ég þekki kraftinn í bændum og veit að þeir takast á við þetta áfall líkt og öll önnur af æðruleysi, festu og dugnaði.

Það er mikilvægt að stjórnvöld grípi inn í líkt og þau hafa áður gert þegar náttúran tekur af mönnum völdin. Við Íslendingar erum vön að standa saman þegar svona stendur á og sýna samtakamátt okkar. Ég reikna ekki með neinni undantekningu núna.