142. löggjafarþing — 5. fundur,  13. júní 2013.

Ríkisútvarpið, fjölmiðill í almannaþágu.

11. mál
[11:57]
Horfa

mennta- og menningarmálaráðherra (Illugi Gunnarsson) (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég reikna með að nokkur munur sé á óskum mínum og hv. þingmanns um starfslengd mína og veru í embætti, við sjáum bara til. En ástæðan fyrir því að ég lagði þetta strax til er einfaldlega sú að ég tel að það fyrirkomulag sem lagt var upp með, með lögunum frá 2013, sé ekki heppilegt, að það hafi þá galla sem ég lýsti hér áðan. Og að halda því fram að það sé sérstaklega ópólitísk nefnd sem skipuð er þremur fulltrúum frá Alþingi — væntanlega alveg rammpólitískum ætla ég úr því að þeir eru valdir af Alþingi — og síðan einum frá Bandalagi íslenskra listamanna, og það liggur fyrir hver var tilnefndur í það, fyrrverandi þingmaður, Kolbrún Halldórsdóttir, og frá háskólanum Ólafur Þ. Harðarson; ágætt fólk, en að ætla að halda því fram að þetta sé einhver trygging fyrir því að engin pólitísk sjónarmið liggi til grundvallar er, og ég ítreka það enn og aftur, virðulegi forseti, mikil bjartsýni.

En hitt vil ég segja að varðandi aðrar stofnanir í eigu ríkisins þá verður það bara að metast út frá hverri stofnun fyrir sig hvað er viðeigandi, hvað er við hæfi. Ég tel að í tilfelli Ríkisútvarpsins sé þetta fyrirkomulag, og það fyrirkomulag sem verið hefur um langa tíð, skynsamlegt. Ég minni á þær breytingar sem gerðar voru 2007, með lögunum þá, þar sem starfssvið stjórnarinnar var afmarkað. Vissulega er það rétt að breyting varð á 2013 en ég verð að segja eins og er að hafi það verið rökin að stjórnin geti komið að langtímaþróun dagskrár, hafi það verið rökin að hægt væri að gera það vegna þess að hún væri orðin svo ópólitísk á grundvelli þeirrar valnefndar sem ég hef lýst hér, þá hefur þar verið á ferðinni alveg ótrúlegur misskilningur.

Auðvitað er það alveg umræðu virði hvort þetta sé skoðað og sjálfsagt að fara yfir það í meðförum nefndarinnar og hér í umræðum. En ég vil halda því fram að í sjálfu sér verði enginn grundvallarmunur á þessu, á stjórnunum, hvort heldur sem menn fara þessa valnefndarleið eða ekki, valnefndin hefur þann ókost að hún er ógegnsæ.