142. löggjafarþing — 5. fundur,  13. júní 2013.

staða þjóðmenningar og menningarmála almennt í stjórnskipuninni.

[13:41]
Horfa

Valgerður Bjarnadóttir (Sf):

Forseti. Það er ekki neinn vafi á því að forsætisráðherra og ríkisstjórnin hefur leyfi til þess að leggja til hinar ýmsu breytingar á skipan ráðuneyta. Það eru heimildir sem komu í stjórnarráðslögunum sem samþykkt voru á síðasta þingi sem ég er sammála vegna þess að ég tel ekki rétt að niðurnjörva starfsemi Stjórnarráðsins umfram annað.

Hins vegar verður því ekki á móti mælt að það kom nokkuð á óvart að fyrsta verk nýrrar ríkisstjórnar væri að nýta þessi lög jafn hressilega og raun bar vitni, en stundum eru heimildir nýttar svo harkalega að konu bregður eiginlega í brún. Þá kemur upp í hugann að það er ekki alltaf rétt að gera allt sem má. Það gefur nefnilega þeim sem vilja njörva niður hluti byr undir báða vængi og þeir heimta reglur og boð og bönn. Þess vegna ber að varast að nýta um of heimildir sem maður hefur.

Því er ekki að neita að sú var tilfinningin þegar þessar fréttir bárust af flutningi málaflokka þjóðmenningarinnar til forsætisráðuneytisins. Að mínu mati er það ákaflega hæpið að færa málefni á milli ráðuneyta vegna þess að einhver einn ráðherra hefur áhuga á einhverjum málaflokki meira en á öðrum. Ráðherrar eru embættismenn og þeir eiga að sinna embættum sínum en ekki áhugamálum. Ég geri ráð fyrir að forsætisráðherrann viti nákvæmlega hvað þjóðmenning er þó að hæstv. menntamálaráðherra geti ekki skýrt það alveg út fyrir okkur.

Virðulegi forseti. En í dag ræðum við málefni Ríkisútvarpsins. Sú stofnun hefur oft verið nefnd hornsteinn íslenskrar menningar og þess vegna má kannski spyrja hvers vegna málefni Ríkisútvarpsins voru ekki færð yfir í forsætisráðuneytið.