142. löggjafarþing — 5. fundur,  13. júní 2013.

staða þjóðmenningar og menningarmála almennt í stjórnskipuninni.

[13:46]
Horfa

Guðmundur Steingrímsson (Bf):

Herra forseti. Sérstök pólitísk áhersla á þjóðmenningu hefur ekki alltaf endað vel, svo að ég noti þjóðmenningarlegt stílbrigði. Það eru margar ástæður fyrir því að viðvörunarbjöllur hringja. Ég vil ekki vera með neinar ásakanir á hendur ríkisstjórninni um illar fyrirætlanir eða neitt slíkt þegar hún leggur sérstaka áherslu á þjóðmenningu. Það er líka hægt að skilja það á fallegan máta, en það hringja viðvörunarbjöllur og í öllu falli vakna stórar spurningar. Þjóðmenning er mjög óljóst hugtak og tengsl manns við þjóð sína getur verið margs konar; hún er oft fögur, stundum ekki fögur og sumir koma annars staðar frá en búa á Íslandi og hafa aðra menningararfleifð. Þetta er mjög margslungið en oft mjög tilfinningaríkt samband. Þetta tvennt; óljóst hugtak og mjög tilfinningaríkt samband hefur oft verið notað í pólitískum tilgangi til að búa til einhvers konar pólitíska rétthugsun og til þess að móta rétta afstöðu í stórum deilumálum.

Ein ástæðan fyrir því að viðvörunarbjöllur hringja í þessu efni er að þess gætir auðvitað í umræðu á Íslandi að aðilar og einstaklingar sem aðhyllast nánara samstarf við til dæmis Evrópuþjóðir eru vændir um að vera ekki hollir þjóð sinni, að vera á móti fullveldi Íslands. Þessarar hugtakanotkunar gætir þannig að í þessu samhengi hringja auðvitað viðvörunarbjöllur þegar ný ríkisstjórn leggur sérstaka áherslu á þjóðmenningu.

Ég vil leggja áherslu á alla menningu. Ég vil að ríkisvaldið skapi svigrúm fyrir fjölmenningu, ómenningu, hámenningu, lágmenningu, alls konar menningu. Ég held að það eigi að vera (Forseti hringir.) nálgunin sem við eigum að beita okkur fyrir.