142. löggjafarþing — 5. fundur,  13. júní 2013.

staða þjóðmenningar og menningarmála almennt í stjórnskipuninni.

[13:58]
Horfa

Óttarr Proppé (Bf):

Virðulegi forseti. Ég hef í sjálfu sér ekkert út á það að setja að ákveðin málefni séu tekin til hliðar og þeim veitt sérstök athygli, en ég verð að setja spurningu við hugtakið þjóðmenningu og hvað telst til þjóðmenningar og hvað ekki. Þjóð og menning — þjóðmenning er mjög loðið hugtak og vísar til ákveðinnar þjóðræknistengingar. Ég spyr mig hvort verið sé að einbeita sér að ákveðinni þjóðmenningu frá ákveðnum tímum. Hvaða tími er þá þjóðlegastur? Er það upphaf 18. aldar þegar Þingholtin voru auðn eða er það upphaf þeirrar 20. þegar húsakostur var orðinn klassískari?

Ég verð líka að spyrja, þegar hugsað er um til dæmis tónlist og einhver þjóðlegustu lög sem alla vega yngri kynslóðir halda að séu eilífðarlög og hafi alltaf verið til eins og „Heyr himna smiður“ eða „Stolt siglir fleyið mitt“, sem eru hvort tveggja tiltölulega nýleg lög, hvort þau teljist þá ekki til þjóðmenningar vegna þess. Sömuleiðis vil ég benda á að íslensk þjóð er það fólk sem býr hér, við búum í fjölmenningarsamfélagi og höfum lengi gert. Það eru til kleinur í Póllandi en þær eru stafsettar með y og z. Hvað er íslenskt og hvað ekki?

Ég spyr mig líka hvort sumri menningu sé greiði gerður með því að vera aðskilin frá menningunni almennt.