142. löggjafarþing — 5. fundur,  13. júní 2013.

staða þjóðmenningar og menningarmála almennt í stjórnskipuninni.

[14:02]
Horfa

mennta- og menningarmálaráðherra (Illugi Gunnarsson) (S):

Virðulegi forseti. Hvað varðar skilgreininguna á þjóðmenningu þá held ég að það hafi komið hér skýrt fram að engin einhlít skýring er til. Þetta er flókið hugtak en við höfum nú samt notað það öðru hverju. Ég minni til dæmis á að ekki langt frá þessu húsi stendur Þjóðmenningarhús og ég man ekki eftir að það hafi valdið sérstökum vandkvæðum að nota þá nafngift á það hús. Hvað varðar þau verkefni sem falla undir forsætisráðuneytið, annaðhvort varanlega eða tímabundið, segi ég enn og aftur, virðulegi forseti: Það er rétt að horfa til forsetaúrskurðarins sjálfs, þar er listi yfir þessi verkefni og það er það sem skiptir máli til þess að átta sig á þessu.

Þegar önnur verkefni í þessum úrskurði eru skoðuð sjá menn til dæmis hvað varðar forsætisráðuneytið að þar undir falla þjóðartákn. Þar er talinn upp fáni Íslands, þjóðsöngurinn, Hin íslenska fálkaorða, önnur heiðursmerki — en við vitum líka til að það eru til önnur þjóðartákn; þjóðarblómið holtasóleyin er eitt af þjóðartáknunum. Þannig að þó að hugtakið þjóðartákn sé margbrotið líka þá gerir það ekki að verkum að við getum ekki notað það í svona skilgreiningu.

Aðalatriðið er þetta: Það er ekki verið að slíta í sundur menningarstarfsemina í landinu. Ég held að það væri nú svolítið langt gengið að það hvar einstakir málaflokkar eru vistaðir, inni í hvaða ráðuneytum, tímabundið augljóslega, af því að ný ríkisstjórn getur breytt þessu ef henni hentar, geti orðið til þess að einhvers konar rof verði í menningarstarfseminni, að skáld og listamenn fari að haga starfi sínu og hugsunum með öðrum hætti vegna þess að það er búið að færa eitthvað til innan Stjórnarráðsins.

Virðulegi forseti. Ég er ekki viss um að það verði eða ég hef alla vega ekki stórar áhyggjur af því að það muni leiða það fram eða að þetta verði grundvöllur að einhverjum þjóðrembingi. Ég held að það sé fjarri lagi, eins og mér fannst ýjað að hér í umræðu, að menn hafi einhverjar áhyggjur af því. Það er svo fjarri.

Hér er verið að tala um þessa málaflokka. Ríkisstjórnin leggur áherslu á þetta, það kemur fram. Mig langar að nefna að gefnu tilefni að tekin er ákvörðun um þetta í stjórnarmyndunarviðræðum (Forseti hringir.) áður en búið er að ákveða hverjir sitja í hvaða ráðuneytum. Það tel ég vera skynsamlegt, (Forseti hringir.) þá fara menn ekki að berjast einhvern veginn fyrir persónulegum hagsmunum heldur láta málefnin einmitt ráða.