142. löggjafarþing — 5. fundur,  13. júní 2013.

aðgerðir vegna skuldavanda heimila á Íslandi.

9. mál
[14:17]
Horfa

Helgi Hjörvar (Sf) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég þakka hæstv. forsætisráðherra fyrir greinargerðina.

Framsóknarflokkurinn fékk til þess skýrt umboð frá kjósendum að ráðast í almennar aðgerðir í skuldamálum og afnema verðtryggingu á neytendalánum. Sem þingflokksformaður Samfylkingarinnar hef ég lýst því yfir að frumvörpum á sumarþingi sem lúta að þessu verði greidd hér leið. Þó að við hefðum gjarnan viljað sjá fleiri slík frumvörp en ekki bara þingsályktunartillögu þá endurspeglar það samkomulag sem er um að klára þá þingsályktunartillögu og umræðuna hér í dag þann góða vilja sem málið mætir í þinginu.

Ég vil hins vegar nota tækifærið og spyrja hæstv. forsætisráðherra um tvennt:

Í fyrsta lagi. Er samkomulag um það milli Framsóknar og Sjálfstæðisflokksins að banna verðtryggingu neytendalána með lögum? Er það skýrt?

Í öðru lagi. Þegar í þingsályktunartillögunni er talað um að leiðrétta það áfall sem skuldarar verðtryggðra íslenskra lána urðu fyrir í hruninu upp að ákveðnu þaki, er þá verið að tala um að leiðrétta alla verðbólgu umfram verðbólgumarkmið Seðlabankans? Eiga skuldararnir von á því að þeim verði bætt allt höggið umfram verðbólgumarkmið Seðlabankans upp að einhverju ákveðnu þaki?

Þetta bið ég forsætisráðherra um að upplýsa til þess að skýra sem mest og eyða óvissu um það við hverju fólk má búast í því efni. Er ekki örugglega samkomulag um að verðtryggingin verði bönnuð með lögum og á ekki að leiðrétta allt verðbólguskotið upp að ákveðnu þaki?