142. löggjafarþing — 5. fundur,  13. júní 2013.

aðgerðir vegna skuldavanda heimila á Íslandi.

9. mál
[14:21]
Horfa

Helgi Hjörvar (Sf) (andsvar):

Virðulegur forseti. Til að taka af öll tvímæli skil ég svar hæstv. forsætisráðherra þannig að það sé já, og já. Já, það sé samkomulag um að banna verðtryggingu neytendalána með lögum, og já, það eigi að leiðrétta upp að ákveðnu þaki alla verðbólguna umfram verðbólgumarkmiðið, auk vikmarka eins og forsætisráðherrann sagði. Ég bið hæstv. forsætisráðherra um að leiðrétta það ef svarið var ekki einmitt já við báðum spurningunum. Þeim svörum fagna ég. Það eyðir ákveðinni óvissu.

Ég spyr forsætisráðherra í framhaldi hvers vegna ekki er gengið lengra í beinum aðgerðum, af því að þetta er í sjálfu sér bara viljayfirlýsing um nefndarvinnu sem er góðra gjalda vert.

Hér hefur til dæmis í fjórgang verið lagt fram á Alþingi frumvarp Lilju Mósesdóttur, síðast sem mál 23 á þingskjali 23 í vetur, um lyklafrumvarpið svokallaða. Báðir ríkisstjórnarflokkarnir hafa lýst því yfir í kosningabaráttunni að þeir vilji að þetta málefni nái fram að ganga. Hvað er því til fyrirstöðu fyrir ríkisstjórnarflokkana að endurflytja einfaldlega það frumvarp sem hefur fjórum sinnum komið fram af hálfu þess ágæta þingmanns sem lagði mikið til þessara mála, Lilju Mósesdóttur, í vetur? Er ekki sjálfsagt að gera þetta strax og láta það verða að veruleika en láta það ekki bíða fram í nóvember, af því að knýjandi er vandi þeirra sem þurfa á lyklafrumvarpinu að halda?

Hitt er kannski spurningin: Ef fyrirsjáanleg er mjög mikil leiðrétting á skuldum heimila, er þá ekki tilefni til þess a.m.k. að hugleiða það hvort hægja þurfi eitthvað á eða stöðva, eins og við gerðum tímabundið á síðasta kjörtímabili, aðfarir að fólki, uppboð og annað slíkt ef fólk sem er í fjárhagserfiðleikum núna á von á því eftir hálft ár eða ár að fá verulega úrlausn sinna mála? Væri ekki synd ef farið væri í harkalegar aðgerðir gagnvart því í millitíðinni? Ætlar forsætisráðherra að grípa til einhverra beinna aðgerða til að stoppa það (Forseti hringir.) að gengið sé að fólki þar til það er búið að fá þessa leiðréttingu sína?