142. löggjafarþing — 5. fundur,  13. júní 2013.

aðgerðir vegna skuldavanda heimila á Íslandi.

9. mál
[14:23]
Horfa

forsætisráðherra (Sigmundur Davíð Gunnlaugsson) (F) (andsvar):

Virðulegur forseti. Hv. þingmaður áréttaði hér mat sitt á því hvað ég hefði sagt og það er svo sem gagnlegt því að það hefur hent helst til oft að undanförnu, sérstaklega eftir kosningar en líka að töluverðu leyti fyrir kosningar, að menn hafi túlkað það sem hefur verið sagt um þessi mál hver á sinn hátt. Hv. þm. Helgi Hjörvar er búinn að útskýra sinn skilning og mun væntanlega, eins og mér heyrðist á hv. þingmanni, beita sér fyrir því að sú verði niðurstaðan. Hann mun væntanlega tala fyrir því að nefnd um afnám verðtryggingar, ef ég skildi hv. þingmann rétt, leggi það til að verðtrygging neytendalána verði bönnuð strax frá þeim degi þegar hún skilar niðurstöðu.

Ég ítreka það sem ég sagði áðan að svigrúm nefndarinnar hlýtur að verða til þess að nýta sem best afnám verðtryggingar fyrir heimilin og hagkerfið í heild og hún skili þá niðurstöðu sem er til þess fallin.

Ég hef tekið eftir mati hv. þingmanns á því hver væri æskilegasta niðurstaðan. Hann birtir þá niðurstöðu nú eftir kosningar. Það er ekkert að því að menn skipti um skoðun á milli kosninga, en það er ánægjulegt að hann skuli vera orðinn mjög afdráttarlaus hvað þessi mál varðar.

Hvað varðar hins vegar fyrirspurn hv. þingmanns um það hvort ekki sé rétt að afgreiða strax tillögu, sem hv. þingmaður minnir á að hafi verið lögð fram fjórum sinnum á Alþingi af fyrrverandi þingmanni, Lilju Mósesdóttur, þá hljómar það óneitanlega svolítið sérkennilega þegar hv. þingmaður er nýkominn úr stjórnarmeirihluta sem gerði ekkert með tillögu sem var lögð fram fjórum sinnum, eins og hv. þingmaður nefndi, að hann skuli ætlast til þess að hún sé lögð fram á fyrsta degi nýrrar ríkisstjórnar. Sú tillaga sem hv. þingmaður vísaði til, eins og aðrar tillögur sem varða stöðu skuldamála heimilanna, þarf að haldast í hendur við heildarlausn þessa vanda. Það er nálgunin sem lagt er upp með með þessari þingsályktunartillögu, að hún feli í sér (Forseti hringir.) heildarlausn og þá verði litið til allra þátta, m.a. þeirra þátta sem hv. þingmaður spurði um.