142. löggjafarþing — 5. fundur,  13. júní 2013.

aðgerðir vegna skuldavanda heimila á Íslandi.

9. mál
[14:30]
Horfa

Guðmundur Steingrímsson (Bf) (andsvar):

Herra forseti. Það hvarflar ekki annað að mér eða þingmönnum Bjartrar framtíðar en að fjalla um þessi mál af sanngirni og yfirvegun, en mér finnst stórar spurningar tengdar því öllu saman.

Ég velti fyrir mér hvað hæstv. forsætisráðherra á við þegar hann talar um skýrslur síðasta kjörtímabils. Ég var meðal annars að vísa í nokkuð margar niðurstöður nefndar um verðtryggingu sem þingmaður í hans flokki veitti forstöðu. Ég er að vitna í úttekt Seðlabankans sem starfar ekki á vegum ríkisstjórnarinnar heldur átti að vera og var hlutlaus úttekt á lánamarkaðnum og leiddi meðal annars í ljós að þeir sem einkum mundu njóta skuldaniðurfellingar, mjög dýrrar skuldaniðurfellingar, er fólk með miklar eignir. Það eru áhöld um hvort þessi aðgerð mundi leysa vanda fólks sem til dæmis á í greiðsluerfiðleikum. Þetta er bara niðurstaða af talnalegri greiningu Seðlabankans þannig að það má spyrja hæstv. forsætisráðherra hvort hann vonist til að hans greining leiði til einhverrar annarrar niðurstöðu. Maður veltir því fyrir sér hvort það veganesti sem er fyrir hendi í margs konar vinnu, sem hefur farið fram í þessum málum muni nýtast í framhaldinu.

Mér finnst margar áleitnar spurningar þessu tengdar, eins og t.d. verðtryggingunni. Það liggur fyrir að meðan við búum í verðbólguþjóðfélagi — ég get alveg fallist á að verðtryggingin ýti á vissan hátt undir verðbólgu, en hún er ekki eini orsakaþátturinn. Þannig að mig langar að spyrja hæstv. forsætisráðherra: Er það ekki áhyggjuefni, ef til dæmis á að afnema verðtryggð lán, að greiðslubyrði af óverðtryggðum lánum er mun meiri eins og efnahagslífið er? Verður það ekki svolítið erfið aðgerð?

Svo langar mig líka að spyrja (Forseti hringir.) þeirrar stóru spurningar hvort farið verði í þessar aðgerðir allar algjörlega óháð því hvort takist að fjármagna þær með samningum við kröfuhafa?