142. löggjafarþing — 5. fundur,  13. júní 2013.

aðgerðir vegna skuldavanda heimila á Íslandi.

9. mál
[14:34]
Horfa

Árni Páll Árnason (Sf):

Virðulegi forseti. Ég fagna því að við getum rætt þessa tillögu til þingsályktunar sem lögð er fram af hæstv. forsætisráðherra. Við höfum lengi beðið eftir því að fá að sjá á spil ríkisstjórnarinnar um efndir á stórum og digrum skuldaloforðum í aðdraganda þingkosninga og gott að fá að sjá það útspil sem frá ríkisstjórninni kemur.

Ég ætla samt að segja í byrjun að mér finnst ekki mjög skýrt kveðið að orði í tillögunni og erfitt er að átta sig á sumum tillögunum. Ég verð þess vegna að segja í framhaldi af andsvörum hæstv. forsætisráðherra áðan að mér þykir forsætisráðherra líka helst til hvefsinn þegar spurt er út í skilning á einstökum þáttum tillögunnar. Það er óljóst orðað og slegið nokkuð úr og í, ég ætla að fara betur yfir það í máli mínu, og ekki er óeðlilegt að þingið óski eftir að fá skýr svör við til dæmis því eins og hér var verið að ganga á eftir áðan: Er það þannig að Sjálfstæðisflokkurinn sé kominn að þeirri niðurstöðu að banna eigi verðtryggingu með lögum? Það hefur hingað til ekki verið afstaða Sjálfstæðisflokksins og það er mikilvægt að okkur sé sagt það og þjóðin á rétt á því. Það skiptir máli að þessi grundvallaratriði komi skýrt fram í umræðu í þinginu. Ef menn ætla að virða þingið verður líka að koma hreint fram og segja hlutina eins og þeir eru.

Hér hefur í fyrsta lagi nokkuð verið rætt um að maður hefði kannski viljað sjá meiri beinharðar aðgerðir. Hæstv. forsætisráðherra segir að ríkisstjórnin þurfi tíma til að útfæra þær og víst er um það. En því verður ekki á móti mælt að sérstaklega Framsóknarflokkurinn háði kosningabaráttu á grundvelli ákveðinna loforða, skýrra loforða, þar sem ekki var rúm fyrir nokkurn efa. Hæstv. forsætisráðherra sagði það skýrt aftur og aftur: Það er hægt að leiðrétta forsendubrestinn, ég veit að það er hægt, ég mun gera það. Frambjóðendur Framsóknarflokksins lofuðu því að það yrði gert strax í sumar. Það er út af því sem við biðjum um skýr svör og við rekum á eftir þeim og viljum fá þau strax.

Þegar maður sér síðan tímasetningarnar í þessu þar sem lagðar eru upp tvær nefndir dettur mér nú í hug gamansaga af einum búskussa fyrir vestan. Það var þannig að hann var alltaf heylaus á hverju vori og búpeningurinn kom illa undan vetri og menn furðuðu sig mikið á því, því að hann bjó á góðri jörð. Svo kemur gestur í heimsókn til hans í byrjun september og það er ekki byrjað að slá, öll grös fallin, allar slægjur gular. Gesturinn segir: Bíddu, það er byrjun september og þú ert ekki byrjaður að heyja. Þá horfir karlinn á gestinn og segir: Nei, október hefur löngum reynst mér drjúgur heyskaparmánuður.

Ekki þarf að hafa mörg orð um það að ekki er mikil næring í heyi sem slegið er í október. En mér sýnist á þessari tillögu að ríkisstjórnin ætli nóvember að verða að drjúgum heyskaparmánuði, heyskaparmánuðurinn er nóvember. Ekki er lagt upp með að efna á nokkurn hátt skýr fyrirheit frambjóðenda um að skuldalækkun kæmi til framkvæmda og leiðréttingar í sumar. Það er beinlínis sagt: Við ætlum að fara í heyskap í nóvember. Svo skulum við sjá hversu næringarríkt það fóður verður sem þá verður í boði.

Um almennar athugasemdir við þingsályktunartillöguna vil ég segja þetta: Þar kemur fram sú afstaða stjórnarflokkanna sem er grundvallarstefnumörkun og breyting á viðhorfum þeirra beggja, sérstaklega Sjálfstæðisflokksins, að leiðrétta eigi verðbólguskot. Með öðrum orðum, að hjá þjóð sem hefur búið við meiri meðaltalsverðbólgu en nokkur önnur vestræn þjóð í áratugi sé verðbólguskot orðið að náttúruhamförum sem þjóðin beri ábyrgð á að bæta fórnarlömbum. Það er gríðarlega alvarleg og mikil ákvörðun og mikil tímamótaákvörðun í hagstjórn á Íslandi. Við höfum lifað við þá verðbólgu og talið var að við yrðum einhvern veginn að bögglast í gegnum byrðarnar af henni saman.

Nú er það sem sagt þannig að verðbólguskot er orðið náttúruhamfarir samkvæmt þessari skilgreiningu. En jafnframt er boðað að tryggja þurfi jafnræði og skilvirkni úrræða og, eins og hæstv. forsætisráðherra sagði áðan í andsvari, að allar aðgerðir þyrftu að standast stjórnarskrá og vera þar af leiðandi í samræmi við almenn jafnræðissjónarmið.

Þá blasir við að spyrja þriggja spurninga. Í fyrsta lagi. Hvað með hið raunverulega stærsta tjón sem nú hefur verið leitt í ljós í mörgum greiningum að er miklu meira en tjón fasteignaeigenda, og það er tjón leigjenda sem hafa greitt verðtryggða leigu frá hruni? Fyrir liggur og einfalt er að færa á það sönnur að tjón þeirra er meira, forsendubrestur þeirra er meiri af því að þeir hafa ekki fengið að njóta hækkunar eigna á móti. Hvernig á að fara með það? Ég sakna þess að ekki sé minnst einu orði á leigjendur. Það hlýtur að vera grundvallarkrafa að þeir sem hafa borgað verðtryggða leigu séu nefndir þarna með.

Annað varðar námsmenn. Hvað með hækkun verðtryggðra námslána? Ef viðmiðið er verðbólguskot, tjón vegna verðbólguskots, þá er tjón allra þessara aðila sem bera verðbólguskotið jafngilt, ef menn meina eitthvað með orðum um jafnræði. Það leiðir auðvitað hugann að fyrri verðbólguskotum. Ef þessi stefna er búin til, hvenær fyrnist tjón vegna verðbólguskota? Hvað með verðbólguskotið upp úr aldamótum? Hvað með fyrri verðbólguskot? Hvað með fyrri misgengistímabil upp úr 1990, upp úr 1980? Hvað um fólkið sem glataði öllu sínu í óðaverðbólgu 1983 o.s.frv.? Með því að viðurkenna tjón vegna verðbólguskots í verðbólgulandi eru menn auðvitað að búa til fjölmargar spurningar um jafnræði sem ekki er svarað á nokkurn hátt hér.

Enn eitt vildi ég nefna vegna þess hvernig málin eru lögð upp. Þetta á greinilega að vera ríkisstjórnar- og sérfræðingaverkefni. Það er breyting frá því sem áður hefur verið. Hæstv. forsætisráðherra talaði áðan af nokkru steigurlæti gagnvart verkum fyrri ríkisstjórnar í skuldamálum. Frá því að við komum fram með fyrsta málið varðandi skuldir heimilanna höfðum við þverpólitíska samstöðu að leiðarljósi; í allsherjarnefnd þegar ég var formaður allsherjarnefndar og við komum að fyrstu greiðsluaðlögunarlögunum fyrir kosningarnar 2009, þegar ég kom sem félagsmálaráðherra með lög sem heimiluðu í fyrsta sinn afskriftir skulda einstaklinga og fyrirtækja haustið 2009. Þá bjuggum við meira að segja til þverpólitíska nefnd. Hv. þm. Unnur Brá Konráðsdóttir — af því að hún situr hér yfir framan mig vil ég nefna það — var fulltrúi Sjálfstæðisflokksins í þeirri nefnd og sú nefnd starfaði missirum saman. Ég vil sérstaklega hrósa hv. þingmanni fyrir að hún var alltaf svo uppbyggileg og vann svo vel í öllum þessum málum og við náðum þverpólitískri samstöðu um öll þessi lykilskref. Við náðum að þjappa okkur mjög vel saman um skilning á helstu viðfangsefnum skuldamála.

Ég sakna slíkra vinnubragða hér. Það er hvergi nefnd þverpólitísk samstaða. Stjórnarandstaðan á ekki að koma að þessu á nokkurn hátt og það er grundvallarbreyting frá því sem áður hefur verið. Og af því að nefnd var verðtryggingarnefnd hæstv. núverandi ráðherra, Eyglóar Harðardóttur, þá er það einmitt enn eitt dæmið um samvinnuna sem við vorum að reyna að hafa, að gefa stjórnarandstöðuþingmanni færi á því að leiða stefnumarkandi vinnu að þessu leyti.

Í þessum dæmum felst auðvitað ákveðin hvatning til nýrrar ríkisstjórnar um að tileinka sér þau opnu vinnubrögð sem við tileinkuðum okkur í umfjöllun um skuldir heimilanna á síðasta kjörtímabili.

Kemur þá að einstökum þáttum tillögunnar sem ég vildi fjalla sérstaklega um. Það eru vissulega mörg atriði af þeim tíu liðum sem mér þykja skynsamleg, en mér finnst skrýtið að menn hafi ekki skýrt frumvarp í einu einasta þeirra því að búið er að vinna mikla grunnvinnu og ætti að vera hægt að vinna það hratt.

Ég tek hér sérstaklega til hvað varðar verkefnisstjórn um framtíðarskipan húsnæðismála í fjórða liðnum. Ég tel alveg ljóst að það er mikilvægt verkefni og endurskipulagning húsnæðismarkaðarins. Búið er að vinna gríðarlega vinnu í því efni á undanförnum árum og hún mun vonandi nýtast þeirri verkefnisstjórn. Þetta er verkefni sem skiptir máli og á að leiða til lykta í þverpólitísku samstarfi.

Annað sem ég tek undir er atriði sem mér hefur lengi hugnast vel, það sem hér er nefnt um að tryggja eignalausum einstaklingum leið til að komast undan skuldum þannig að þeir þurfi ekki að greiða kostnað af eigin gjaldþroti. Það er eðlilegt að nýta allar leiðir, jafnt svipur sem hvata á fjármálafyrirtæki til þess að hraða endurútreikningi lána og vinnslu skuldaúrræða. Þegar ég var efnahags- og viðskiptaráðherra gerðum við einmitt mikið í því að setja inn hvata hvað það varðaði að láta það kosta bankana mjög mikið að vinna ekki í skuldamálum. Við stóðum gegn öllum hugmyndum um að hægt væri að túlka vanskil þeirra hóflegri, með öðrum orðum að þeir gætu komist hjá kostnaði sem fylgdi því að gera lítið í skuldamálum. Þeim mun meira sem þeir gerðu í skuldaúrvinnslu og því meira og hraðar sem þeir afskrifuðu, þeim mun meira nutu þeir.

Að sjálfsögðu er eðlilegt að afnema stimpilgjöld. Ég velti því hins vegar upp, eins og kom fram í hádegisfréttum, að forstjóri Persónuverndar gerði athugasemdir við frumvarp forsætisráðherra um heimildir Hagstofunnar vegna fjárhagsstöðu einstaklinga. Það er auðvitað sjónarmið hversu langt beri að ganga í því að safna persónugreinanlegum upplýsingum um skuldir fólks. En stóru atriðin eru fyrsti þátturinn þar sem sagt er að sérfræðingahópur eigi að útfæra mismunandi leiðir til að ná fram höfuðstólslækkun verðtryggðra húsnæðislána og gera tillögur þar að lútandi.

Nú verða hv. þingmenn að fyrirgefa mér þó að ég fari hér í nokkra textarýni því að þetta er það eina sem við fáum frá ríkisstjórninni. Hæstv. forsætisráðherra skýrði ekki mikið einstaka þætti í máli sínu áðan. Ég vona að hann hjálpi mér, ef hann kemur í andsvar á eftir, að skilja þættina. En eins og ég les þetta, og nú er ég bara að vinna út frá einfaldri textarýni því að þetta er mjög knosaður texti og óljós, er talað um almennar aðgerðir sem gagnist öllum heimilum sem urðu fyrir forsendubresti. Þá spyr ég aftur: Leigjendum, námsmönnum? Hvað er að verða fyrir forsendubresti?

Talað er um skýra hvata lántakenda til að breyta fjármögnun í óverðtryggð lán, og síðan er fjallað í löngu máli í umfjöllun um fyrsta liðinn um nákvæmlega þann þátt. En svo sagði forsætisráðherra áðan að það sé þó ekki skylda. Ókei. Af hverju er þá verið að fókusera svona mikið á umbreytingu í óverðtryggð lán þegar verið er að tala um leiðréttingu á forsendubresti? Af hverju er verið að rugla því tvennu saman ef það er ekki skylda? Það sem ég les út úr þessu er að verið sé viljandi að hræra saman ólíkum hlutum til þess að segja á endanum: Niðurstaða sérfræðingahópsins er að hér sé leiðrétting á forsendubrestinum og hún felst í umbreytingu yfir í óverðtryggð lán og núvirðingu lánanna og engu öðru. Hér segir líka jafnframt að metinn verði fýsileiki þess að lækka höfuðstól lána með skattafslætti. Útfærsla gæti orðið þannig að lántakendum verði gert kleift að greiða inn á höfuðstól lána og njóta skattafsláttar í staðinn. Halló, halló, þetta er tillaga Sjálfstæðisflokksins frá því í síðustu kosningabaráttu. (Forsrh.: Og okkar.) Hún er um að menn greiði inn á lánin og fái skattafslátt á móti, þeir sem hafi fjármuni til að lækka lánin sín njóti þess og þeir fái viðbótargreiðslur. Þeir sem ekki hafa efni á að borga inn á lánin sín og lækka þau þannig sitja uppi með forsendubrestinn. Bíddu, það er ekki að leiðrétta forsendubrest, hæstv. forsætisráðherra. Það er að mismuna fólki á grundvelli efnahags. Bara þeir sem eiga handbært fé til að greiða inn á lánin sín munu njóta einhvers en ekki hinir. Það er ekki jafnræði. Mér þykir það, meira að segja að ýja að þeirri leið, vera staðfesting á því að menn eru þegar komnir burt frá jafnræðinu.

Virðulegi forseti. Síðan segir í lokin á þessum fyrsta lið að samhliða skoðun á þeim leiðum sem færar eru til að leiðrétta forsendubrestinn þurfi að skoða aðrar leiðir sem geta verið færar til að nýta það svigrúm sem að öllum líkindum myndast samhliða uppgjöri þrotabúa gömlu bankanna til að koma til móts við lántakendur. Halló, halló, aftur. Samhliða skoðun á þeim leiðum sem færar eru til að leiðrétta forsendubrestinn — það er eitt sem á að gera, leiðir til að leiðrétta forsendubrestinn — þá á að skoða aðrar leiðir sem geta verið færar til að nýta svigrúmið sem að öllum líkindum myndast samhliða uppgjöri þrotabúanna. Annað var sagt við okkur í kosningabaráttunni. (Gripið fram í: Nei.) Þá átti leiðréttingin ekkert að kosta vegna þess að nýta ætti svigrúmið úr uppgjöri þrotabúanna. En hér eiga að vera til tvær mögulegar leiðir, önnur sem felur í sér að nýta svigrúmið úr uppgjöri þrotabúa gömlu bankanna og svo einhver önnur. Hver er hún? Hver á að borga þá leiðréttingu á forsendubresti?

Þetta er svo óskýrt orðað að það er ekki boðlegt, það getur enginn skilið hvað hér er átt við. Er verið að finna leiðir til að leiðrétta forsendubrest með einhverju utanaðkomandi fé? Segið það þá, þá verður að segja það að koma eigi nýtt fé úr þrotabúum gömlu bankanna, það sé grundvallarforsenda. Og um hvað á þá leiðréttingin að snúast? Er það umbreyting í óverðtryggð lán, með öðrum orðum höfuðstólslækkun, eins og bankarnir auglýstu fyrir nokkrum missirum þar sem menn gátu fengið höfuðstólslækkun með því að fara yfir í óverðtryggð lán, af því að núvirðingin lækkaði höfuðstólinn en afborganirnar hækkuðu? Eða er eitthvað annað í spilunum?

Hér er bara verið að tala með almennu blaðri og lofti um ekki neitt. Það er ekkert í þessu efnislegt sem hönd á festir. Það er ekki sæmandi ríkisstjórn sem situr í krafti þess að hafa lofað mönnum handföstum aðgerðum í skuldalækkun núna í sumar. Það er ekkert í þessu.

Virðulegi forseti. Síðan horfir maður á aðra þætti og ég staðnæmist við þriðja þáttinn, um að kannað verði hvernig gera megi eigendum yfirskuldsettra íbúða kleift að losna án gjaldþrots undan eftirstöðvum sem veðið sjálft stendur ekki undir. Ég hef skilið þetta þannig eins og bæði Framsóknarflokkur og Sjálfstæðisflokkur sögðu í kosningabaráttu að þeir vildu setja lyklalög þannig að fólk gæti losnað undan eignunum sínum. En hér er þetta orðað á mjög undarlegan hátt. Það er eins og menn átti sig ekki alveg á umgjörðinni sem búið er að skapa með greiðsluaðlögunarlöggjöfinni annars vegar og 110%-leiðinni hins vegar. Það er í boði í dag, 110%-leiðin sem gerir fólki kleift að fá skuldir lækkaðar niður að verðmæti eignar og halda henni. Síðan er hægt að útfæra þá leið betur. Við lögðum það til í kosningabaráttunni að leggja þyrfti meira fé í að útfæra hana betur til að tryggja jafnræði milli einstakra lánastofnana. Sú leið hefur sem sagt verið prófuð. (ELA: Ekki gefið góða raun.) Ja, hún gerir fólki kleift að komast niður að verðmæti eignarinnar og halda eigninni. (Gripið fram í.)

Hér er verið að tala um að gera fólki kleift að losna undan því sem er umfram verðmæti eignarinnar og tapa eigninni, tapa henni, skila henni. Það er hægt í greiðsluaðlögun í dag. Það er líka hægt í greiðsluaðlögun að halda eigninni og losna við kröfur umfram. Ég átta mig því ekki alveg á hvað er verið að útfæra hér. Það er búið að útfæra leiðir til þess að losna undan kröfum sem veðið stendur ekki undir. Sú leið er til og heitir greiðsluaðlögun í dag. Hvað vilja menn nákvæmlega gera við það? Hverju vilja menn breyta þar? Vilja menn setja það sem almenna reglu að fólk fái ekki að halda eignum og fá kröfur lækkaðar niður að verðmæti eins og er hægt í 110%-leiðinni? Er það markmið að menn þurfi alltaf að skila eigninni til að losna undan viðbótarkröfum? Ég átta mig ekki á hver nýlundan á að vera í ljósi þess hvað liggur nú þegar fyrir.

Síðan eru það tímamót, sem kemur fram í sjötta liðnum, að settur verði á fót sérfræðingahópur um afnám verðtryggingar af neytendalánum. Auðvitað er almenningur búinn að velja, almenningur er hættur að taka verðtryggð lán. Það er afleiðing af misgenginu og fólk er skelft eftir upplifun síðustu ára. En það eru tímamót að Sjálfstæðisflokkurinn skrifi upp á það í stjórnarsáttmála að banna þetta með lögum. Eins og hæstv. forsætisráðherra skýrði hér áðan liggur fyrir afstaða beggja stjórnarflokkanna um að það skuli banna þetta með lögum og verkefnið er allt annað, eins og hann sagði, en það hefði verið í sérfræðingahópi hv. þáverandi þm. Eyglóar Harðardóttur. Ekki umræða um kosti og galla verðtryggingar heldur þvert á móti eigi þessi sérfræðingahópur að afnema hana. Og það liggur þá fyrir að Sjálfstæðisflokkurinn styður Framsóknarflokkinn núna í því að banna verðtryggingu á neytendalán.