142. löggjafarþing — 5. fundur,  13. júní 2013.

aðgerðir vegna skuldavanda heimila á Íslandi.

9. mál
[14:59]
Horfa

forsætisráðherra (Sigmundur Davíð Gunnlaugsson) (F) (andsvar):

Virðulegur forseti. Það var líka bara í fullri vinsemd að ég reyndi einu sinni sem oftar að benda hv. þingmanni á að það væri ekki gagnlegt fyrir uppbyggilega rökræðu að halda fram tómri vitleysu. Það væri t.d. miklu skynsamlegra varðandi þessa umræðu ef hv. þingmaður eyddi ekki löngum tíma í að fullyrða að framsóknarmenn hefðu haldið ýmsu fram sem þeir héldu ekki fram.

Ef hv. þingmaður færi til dæmis bara yfir þessa tillögu og mæti kosti hennar og galla í stað þess að skálda jafnóðum upp hvað stendur í henni væri það miklu uppbyggilegri og gagnlegri umræða ef hv. þingmanni er alvara með það að hann vilji raunverulega sjá framgang þessa máls.

Það lá fyrir í kosningabaráttunni og eftir kosningar fyrir hvað framsóknarmenn stæðu í skuldamálum heimilanna og sú tillaga sem hér er kynnt er fullkomlega í samræmi við það.