142. löggjafarþing — 5. fundur,  13. júní 2013.

aðgerðir vegna skuldavanda heimila á Íslandi.

9. mál
[15:00]
Horfa

Árni Páll Árnason (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég ítreka það sem ég sagði áðan, ég held að okkur færi betur að gefa mönnum ekki einkunnir með almennum gífuryrðum eins og „vitleysa“ og „bull“ og „leiðrétta bull og þvætting“ heldur svöruðum gagnrýni efnislega.

Ég get alveg talið upp þau tilvik þar sem frambjóðendur Framsóknarflokksins lofuðu aðgerðum strax. Hvað þýðir það þegar forsætisráðherrann núverandi, formaður Framsóknarflokksins, horfir í augu þjóðarinnar kvöldið fyrir kjördag í sjónvarpsauglýsingu og segir: Þetta er hægt, ég veit það. Ég veit að þetta er mögulegt. Við getum gert þetta? (Forsrh.: Enda er …) Bíddu, hér er ekki verið að gera neitt sem menn vita hvernig á að gera. Það á að setja á fót nefndir til að finna út úr því hvernig á að gera þetta. Það eru fyrstu brigðin, hæstv. forsætisráðherra. (Gripið fram í.)