142. löggjafarþing — 5. fundur,  13. júní 2013.

aðgerðir vegna skuldavanda heimila á Íslandi.

9. mál
[15:09]
Horfa

Árni Páll Árnason (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni athugasemdina. Ég hef séð þau tilvik sem hún vísar í í þingsályktunartillögunni um að leita skuli almennrar samstöðu. Mér þykir það reyndar dálítið loðið orðalag ef hugsunin var að hafa þverpólitíska samstöðu, þá held ég að menn hefðu alveg mátt splæsa á það svona eins og einu orði, en tek viljann fyrir verkið og skal ekki að órannsökuðu máli staðhæfa að stjórnarmeirihlutinn hyggist ekki tala við stjórnarandstöðuna um vinnu á þessu sviði.

Menn geta haft ólík viðhorf til einstakra lausna en þverpólitískt samstarf er mjög mikilvægt. Við náðum þverpólitískri samstöðu allra flokka hér nema Hreyfingarinnar um lögin haustið 2009 og aftur um allan lagapakkann stóra vorið 2010. Þá lágum við til dæmis líka yfir því hvort skynsamlegt væri að samþykkja lyklafrumvarp og komumst að þeirri niðurstöðu að svo væri ekki. Þetta var allt gert í mikilli samvinnu og samtali og opnu samráði. Ég man eftir því sem ráðherra að hafa oft mætt á nefndarfundi og rætt við nefndina um þetta og einstakir nefndarmenn komu á minn fund með sín sjónarmið og við ræddum saman.

Í grunninn hefði ég talið að skuldamál heimilanna væri þannig verkefni að við yrðum að vinna saman um það og ættum ekki að fara í pólitískan keiluslag um það, við ættum að reyna að ná samstöðu um það.

Ég vil enn og aftur hrósa hv. þm. Unni Brá Konráðsdóttur fyrir hvernig hún hélt á þessum málum fyrir hönd síns flokks á síðasta kjörtímabili. Það var algjörlega til fyrirmyndar. Það er alveg ljóst að við erum til í samtal en við gefum auðvitað ekki öðrum flokkum óútfylltan tékka til þess að gera það sem þeir vilja. Í því felst ekki samráð, samráð felst í að við sitjum saman og ræðum okkur til sameiginlegrar niðurstöðu.