142. löggjafarþing — 5. fundur,  13. júní 2013.

aðgerðir vegna skuldavanda heimila á Íslandi.

9. mál
[15:12]
Horfa

Árni Páll Árnason (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Fyrst varðandi það sem hv. þingmaður spurði um, hver þýðing fyrirheits okkar væri um að greiða málum leið, þá þýðir það það að við teljum Framsóknarflokkinn skulda þjóðinni aðgerðir. Við erum til í að hjálpa Framsóknarflokknum að koma þeim málum í gegnum þingið, ekki með því að greiða þeim atkvæði en við munum ekki efna hér til málþófs eða stöðva þau. Ef framsóknarmenn koma með þau á þessu sumarþingi skulda þeir þjóðinni þau á þessu sumarþingi og við munum greiða því leið að þeir geti afgreitt þau en við munum auðvitað koma fram með efasemdir okkar og tjá þær hér og vinna þær en við munum ekki stöðva málin eða bregða fyrir þau fæti.

Út af því sem hv. þingmaður segir síðan um upplýsingaöflunina þá er það allt hárrétt, það er mjög mikilvægt að fá alvöruupplýsingar. Þegar við vorum að glíma við þetta á síðasta kjörtímabili sagði einn hv. þingmaður og þáverandi ráðherra, Svandís Svavarsdóttir, einu sinni að henni þættu endalaus samtöl okkar um skuldavanda heimilanna minna á að vera gangandi í þoku með plástur í örvæntingarfullri leit að sári í þeirri veiku von að plásturinn mundi passa sárinu þegar maður loksins fyndi það. (Forseti hringir.) Þannig má þetta ekki verða áfram. Þess vegna lagði ég í tvígang fram frumvörp (Forseti hringir.) um upplýsingasöfnun um skuldir heimilanna sem þingið treysti sér því miður ekki til að afgreiða og það (Forseti hringir.) er mikið áhyggjuefni.