142. löggjafarþing — 5. fundur,  13. júní 2013.

aðgerðir vegna skuldavanda heimila á Íslandi.

9. mál
[15:14]
Horfa

Svandís Svavarsdóttir (Vg):

Virðulegur forseti. Við ræðum hér tillögu til þingsályktunar um aðgerðir vegna skuldavanda heimila á Íslandi. Það eru auðvitað nokkur þáttaskil og hátíð í bæ hefði ég haldið þegar komið er að því að menn lyfti lokinu af leyndardómnum um það hvernig kosningaloforðin verða efnd.

Það er gaman í kosningabaráttu. Það er eftirminnilegt að hitta fólk og ræða við það um stöðu þess, vinna í því að reyna að sannfæra fólk um það að atkvæði greitt mínum flokki sé góð og skynsamleg ráðstöfun, að við séum traustsins verð og höfum gert vel og munum halda áfram að gera vel.

Það var svolítið snúið í aðdraganda síðustu kosninga þegar um var að ræða samkeppni við flokk, og ég vil sérstaklega nefna Framsóknarflokkinn í því efni, sem gekk býsna langt í því að segja: Annaðhvort stendur þú með Framsóknarflokknum eða gegn heimilunum. Þannig var umræðan og þetta var umræðan í anddyrum stórmarkaðanna og úti á torgunum og valkostirnir voru þessir: Annaðhvort stendur þú með Framsóknarflokknum eða þú stendur gegn heimilunum í landinu. Ef einhver velti vöngum og sagði: Ég veit það ekki, á ég að fara að kjósa Framsóknarflokkinn?, þá var viðkvæðið stundum: Bíddu, stendur þú ekki með heimilunum? Ég er nú ekki fædd í gær en ég man ekki eftir umræðu í aðdraganda kosninga sem hefur verið nákvæmlega svona sérkennilega stemmd og sérkennilega stillt.

Það er svo erfitt að rökræða þegar um er að ræða svona fullyrðingar. Ég held hins vegar að frambjóðendur Framsóknarflokksins hafi verið mjög sannfærðir og ég upplifði mikinn kraft og mjög mikla gleði í þeirra hópi. Það er gaman í kosningabaráttu og sérstaklega gaman í kosningabaráttu þegar vindurinn er í seglin og þegar maður finnur að málflutningurinn fær góð viðbrögð, fólk hefur trú á því sem maður er að segja og maður finnur fyrir erindinu, finnur fyrir því að maður á erindi við kjósendur, finnur fyrir því að maður býr yfir trúverðugleika og eflist líka í þeirri trú að maður eigi virkilega erindi í stjórn landsins.

Þjóðin kaus og hún kaus þessar vonir að mjög mörgu leyti. Hún kaus það sem var býsna skýrt fyrir kosningar, hún kaus að það þyrfti engar nefndir, það þyrfti ekki nefndir og þyrfti ekki starfshópa, þetta væri hægt að fara í. Það átti að reiða hátt til höggs og það átti að láta hrægammana finna fyrir því. Einhverjir töluðu um sleggjur og önnur amboð komu líka til tals. Það átti ekkert að gefa eftir. Nú erum við hér að ræða tillögu til þingsályktunar þar sem eru taldar upp nefndir og starfshópar af ýmsu tagi sem eiga að skoða eitt og annað, allt fer í nefnd og allt fer í starfshópa.

Það þurfti ekki að fara með lækkun veiðileyfagjaldsins í nefnd. Það þurfti ekki að fara með lækkun á virðisaukaskatti á ferðaþjónustuna í nefnd. Það þurfti ekki að fara með breytingar á stjórn Ríkisútvarpsins í starfshóp, samráð við listamenn, starfsfólk RÚV. Það þurfti ekki því að þar voru aðgerðir, þar voru skýrar aðgerðir. Þær voru hins vegar ekki til umræðu í kosningabaráttunni sérstaklega. Þær voru ekki á bæklingunum í anddyri stórmarkaðanna: Lækkum veiðileyfagjaldið því að annaðhvort stendur þú með Framsókn eða gegn útgerðinni. Það var enginn sem sagði það. Loforðin voru nefnilega svo hástemmd að það er skylda okkar sem erum í stjórnarandstöðu, í minni hluta í þinginu, að standa þá vakt í þessari umræðu í þingsal að staðið verði við þau loforð. Það er nefnilega enginn annar sem getur staðið við loforðin en nákvæmlega þessi ríkisstjórn, það er enginn annar sem getur gert það.

Það er aumt þegar þessi sama ríkisstjórn rökstyður sig með því að halda ítrekaða blaðamannafundi um það að hér sé allt miklu verr statt en það leit út fyrir að gera í aðdraganda kosninga og gera því jafnvel skóna með dramatísku augnaráði að einhverju hafi verið haldið leyndu, þess vegna sé staðan miklu verri. En sama dag eru svo lögð fram frumvörp þar sem enn er þrengt að hinum aðþrengda ríkissjóði, þessi aumingja ríkissjóður sem líður miklu verr en nokkur vissi, aumingja, aumingja ríkissjóður. Það koma tillögur um að gefa honum enn þá minna að borða frá þeim sömu sem hafa svo miklar áhyggjur af heilsufarinu, frá sömu mönnunum og tala um það á blaðamannafundinum, auðvitað í Þjóðmenningarhúsinu, að sjálfsögðu. Allir þeir tónar sem er verið að slá hér, átta nefnda áætlun hæstv. forsætisráðherra, starfshópur, úttekt, könnun, verkefnastjórn, starfshópur, könnun, starfshópur, könnun. Sjónir þjóðarinnar eru á efndum kosningaloforðanna og þær eru ekki í þessu plaggi, þær eru bara ekki í þessu plaggi.

Ýmislegt hefur verið rætt í umræðunni í dag og auðvitað er margt efnislegt sem væri hægt að staldra við hér. En af því að hæstv. forsætisráðherra talaði um það í stefnuræðunni — þegar hann kom sér út úr langa kaflanum um breytt vinnubrögð, samstarf, samvinnu, skynsemi, ég veit ekki hvort hann nefndi virðingu, ég held það jafnvel, en ég er einhvern veginn búin að gleyma því hvort hann nefndi virðingu af því að það hefur ekki verið það sem hefur svifið sérstaklega hér yfir vötnunum — en samstarf við stjórnarandstöðuna í þessu stóra máli hefur ekki verið á dagskrá. Það hefur ekki verið til umræðu og það er ekki í þessari sérkennilegu þingsályktunartillögu, sem er tillaga þar sem ríkisstjórnin er að biðja þingið um að biðja sig um að setja á fót átta nefndir eða biðja þingið um að biðja sig um að efna kosningaloforðin. Þetta er í öllu falli mjög undarlegt, það er eiginlega alveg sama hvernig maður lítur á það.

Hvað af þessum aðgerðum hefur áhrif á stöðu íslenskra heimila strax? Hvað af þessum aðgerðum hefur áhrif á stöðu íslenskra heimila fyrir áramót? Hvað af þessum aðgerðum hefur áhrif á stöðu íslenskra heimila innan árs, fyrir áramótin 2014–2015 o.s.frv.? Sérfræðingahópurinn sem á að útfæra mismunandi leiðir til að ná fram höfuðstólslækkun verðtryggðra húsnæðislána og gera tillögur þar að lútandi á að skila í nóvember 2013. Hann á að skila í nóvember 2013, hann á að skila tillögum sínum svo seint á árinu að það er ljóst að ekki verður úr framkvæmdum á næsta fjárlagaári vegna þess að við erum komin það langt í fjárlagavinnunni þegar nefndin skilar af sér í nóvember. Ég er að velta fyrir mér, virðulegur forseti, tímalínunni í hugum þeirra sem töluðu um efndir og engar nefndir. Ég velti satt að segja líka fyrir mér hér í þessum þingsal, vegna þess að ég fann fyrir gleði ungra framsóknarmanna sem voru að dreifa bæklingum en ég fann líka fyrir efasemdum sjálfstæðismanna bæði í aðdraganda kosninganna og líka eftir þær, er það svo að það að vaða í að lækka veiðileyfagjaldið með slíku offorsi, og það þarf engar nefndir í það, er það það sem Sjálfstæðisflokkurinn telur duga á móti því að Framsóknarflokkurinn komi fram með þá framkomu gagnvart þjóðinni að skila auðu í skuldavandamálum? Er það svo?

Ég vil líka nefna það sem áður hefur komið fram í umræðunni að þegar verið er að ræða forsendubrest og flókna stöðu heimilanna í landinu er mikilvægt að halda því til haga að við í Vinstri hreyfingunni – grænu framboði höfum aldrei gert lítið úr þeim vanda. Það er hins vegar líka ljóst að sá vandi á sér mjög langa sögu. Íslenska efnahagshrunið var náttúrlega erfiðasta höggið sem íslenskt samfélag hefur nokkurn tíma orðið fyrir. Það voru því miður ekki bara þeir sem skulduðu húsnæðislán sem urðu fyrir höggi heldur miklu, miklu fleiri. Leigjendur og námsmenn urðu líka fyrir höggi, en það sem var kannski alvarlegasta höggið var höggið á íslenskt velferðarkerfi, á íslenskt menntakerfi, á samfélagið, á fullveldið þar sem raunverulegur möguleiki var á því að Ísland yrði gjaldþrota. Það var stærsta aðgerðin fyrir íslensk heimili sem þáverandi ríkisstjórn fór í, að standa vörð um Ísland.

Í ágætri úttekt frá upplýsingaþjónustu Alþingis um forsendur, skuldir og vísitölur segir, með leyfi forseta:

„Ljóst er að mörg heimili eru í vandræðum með lán sín og jafnvel í vanskilum en ástæður þess eru ekki einvörðungu utanaðkomandi, þ.e. verðtrygging, gengistrygging eða bankahrun. Vandamálið var til staðar áður en verð- og gengistryggingar fóru að gera mönnum lífið leitt en bankahrunið með tilheyrandi afleiðingum gerði stöðuna erfiðari.“

Og síðar:

„Greining á því af hverju heimilin lenda í þessum vandræðum liggur hins vegar ekki fyrir en eins og áður hefur komið fram er skuldinni gjarnan skellt á utanaðkomandi aðstæður eða einhvers konar „ránskjaravísitölu““, sem er orð sem hefur gjarnan verið notað í gegnum tíðina um verðtrygginguna og vísitöluna.

Það sem segir þarna er að þótt gengið sé vasklega fram, eins og framsóknarmenn hafa haft fyrirheit um, er spurningin sú hvort tryggt sé að jafnræðis verði gætt aftur í tímann gagnvart þeim sem hafa áður lent í skakkaföllum af völdum verðtryggingar og verðbólgu. Þetta er óþægilegur veruleiki kynslóðanna á Íslandi, hverrar á fætur annarrar, að lenda í því að vera meira og minna í vinnu hjá bankakerfinu alla sína ævi við að greiða fyrir húsnæðislán. Það er í raun og veru allt of mikil skuldsetning almennt á Íslandi í húsnæðiskerfinu, enda vil ég sérstaklega fagna þeim aðgerðapunkti sem er nefndur hér um húsnæðisstefnu og bendi á góða vinnu sem getur legið þar til grundvallar og vænti þess að hæstv. ríkisstjórn nýti þar þá vinnu sem er fyrir hendi. Þetta mál verður ekki rofið úr því samhengi að ræða um húsnæðismál og húsnæðismenninguna, liggur mér við að segja, á Íslandi sem er séreignarstefnan sem hefur að svo ótrúlega mörgu leyti bundið okkur öll á klafa mikillar skuldsetningar, eiginlega ævina á enda.

Hæstv. forsætisráðherra er tíðrætt um samstarf og samvinnu og meira að segja talar hann gjarnan um sanngirni. Af því að ég á minn bakgrunn í málvísindum hef ég gaman af orðum og orðfæri og því hvernig fólk beitir þeim. Orðfærið sanngirni notar hæstv. forsætisráðherra bara þegar það á við að honum finnst hann hafa orðið fyrir svo mikilli ósanngirni, og iðulega er það þá í leiðindaandsvörum eða einhverju slíku. Ég bið hann um að prófa að snúa orðinu í hina áttina af því að ég held að það sé sniðug æfing að gera fyrir alla, þetta með gullnu regluna, að beita góðum siðum bæði á aðra og sjálfan sig. Ég held að það væri til bóta.

Virðulegur forseti. Ég hef farið yfir þessar tillögur og skoðað þær og það hvert þeim er vísað, þ.e. hver ber ábyrgð á hverri tillögu um sig. Ég sé ekki betur en að það séu í meginatriðum þrjú ráðuneyti sem fara með þau mál, þ.e. forsætisráðuneytið, velferðarráðuneytið, þ.e. félags- og húsnæðismálaráðherra og svo innanríkisráðuneytið. Það eru tvö atriði sem eru á könnu fjármála- og efnahagsráðherra, tvö atriði af tíu, þannig að um flest þeirra atriða gildir að þau eru á hendi hinna ráðuneytanna. Ég tel og vil í fullri vinsemd gera það að tillögu minni að málinu verði vísað til velferðarnefndar til umfjöllunar og úrvinnslu þar sem það eru miklu fleiri atriði í þingsályktunartillögunni sem eiga heima þar en beinlínis í efnahags- og viðskiptanefnd, því að þar eru í raun og veru fá atriði sem hafa einhverja tilvísun beint þar inn. Ég held að velferðarnefndin sé betri vettvangur til þess að fjalla um málið og getur auðvitað gert það í góðu samstarfi við aðrar nefndir þingsins. Auk þess tel ég að góður bragur væri á því í anda samvinnu og ungmennafélagsandans að nefnd sem er stýrt af þingmanni úr stjórnarandstöðunni haldi utan um framvindu málsins til að tryggja greiðari framgang þess í gegnum þingið.

Virðulegur forseti. Þetta er stóra málið um efndir ríkisstjórnarinnar og hún er með því að leggja málið fram með þessum hætti að kaupa sér tíma, það er það sem hún er að gera. Hún er að kaupa sér tíma af því að hún er ekki tilbúin með málin, hún er ekki tilbúin með málin sem voru einföld fyrir kosningar en eru flóknari núna. Það eru tvö frumvörp komin af þessum lista og það er flýtimeðferðin, sem við erum með til umfjöllunar í allsherjar- og menntamálanefnd, og svo eitt annað mál sem er gagnasöfnun Hagstofunnar. Hvorugt af þeim tveimur málum hefur beinlínis afgerandi áhrif á skuldug heimili í landinu. Ég held raunar að ef maður þræðir sig niður þennan lista sé það ekki svo að um kúvendingar fyrir heimilin í landinu sé að ræða, a.m.k. ekki, virðulegur forseti, á næstu missirum. En við munum hér eftir sem hingað til standa okkar vakt í því að gæta þeirra hagsmuna að ný og bjartsýn ríkisstjórn fái til þess færi að leggja fram sínar efndir þar sem um var að ræða slík tímamót að mér sýnist um að ræða Íslandsmet í kosningaloforðum.