142. löggjafarþing — 5. fundur,  13. júní 2013.

aðgerðir vegna skuldavanda heimila á Íslandi.

9. mál
[15:49]
Horfa

Brynhildur Pétursdóttir (Bf):

Virðulegi forseti. Björt framtíð mun ekki standa í vegi fyrir því að þessi þingsályktunartillaga muni ná fram að ganga. Mér finnst sjálfsagt að skoða allar leiðir núna sem miða að því að rétta hlut heimilanna. Ég upplifi þetta kannski fyrst og fremst sem áframhaldandi vinnu. Það er náttúrlega ekki rétt að ekkert hafi verið gert. Það hefur heilmargt verið gert, en það þarf að gera betur.

Ég ætla ekki að telja upp alla þessa punkta, margt þarna er ágætt. Mér finnst t.d. mjög mikilvægt að vera með einhverja tímabundna aðgerð til að gera fólki kleift að losna úr yfirskuldsettum fasteignum. Það er ekki þannig að greiðsluaðlögun bjargi öllum, vegna þess að til þess að komast í greiðsluaðlögun þarf að uppfylla ákveðin skilyrði.

Ég set auðvitað spurningarmerki við það að banna verðtryggingu eða afnema verðtryggingu. Það verður fróðlegt að sjá hvað kemur úr þeim sérfræðingahópi. Í upphafi ætlaði ég að vera gagnrýnin á að stofna ætti enn einn hópinn, en þetta er mjög flókið mál og mikilvægt að það sé skoðað vel.

Ég er sammála því að verðtryggingin sé ekki góð. Hún er kannski bara til komin vegna verðbólgu í þjóðfélaginu. Ég velti fyrir mér hvort það sé mögulegt að afnema bara verðtryggingu á lánum en ekki af sparnaði um leið. Hvað verður um fermingarsparnað dóttur minnar, svo dæmi sé tekið?

Stimpilgjaldið hefur verið nefnt hér og það er mjög mikilvægt að afnema það þó ekki væri nema til að auka hreyfanleika á markaði, auka samkeppnina, gera neytendum kleift að skipta um banka. Þetta er mál sem ég veit að hagsmunasamtök neytenda hafa barist fyrir árum saman, ef ekki í áratugi. En það er með þetta eins og margt annað að það þurfti allsherjarhrun til að málefni heimilanna færu almennilega upp á borð.

Við tökum bara undir þetta og munum að öllum líkindum samþykkja þessa þingsályktunartillögu. Það er rétt að fara vel yfir þetta og ana ekki að neinu. Það sem mér finnst kannski flóknast í þessu fyrir utan verðtrygginguna er skuldaleiðréttingin og hvernig á að fara í hana með sanngjörnum hætti, það er mjög snúið mál, t.d. hvort við ætlum að nýta sameiginlegt skattfé og hvort því sé best varið með þessu móti. En ég ætla ekki að gagnrýna það núna. Við skulum bara ræða það þegar tillögurnar og frumvörpin liggja fyrir.