142. löggjafarþing — 5. fundur,  13. júní 2013.

aðgerðir vegna skuldavanda heimila á Íslandi.

9. mál
[15:58]
Horfa

Sigríður Ingibjörg Ingadóttir (Sf):

Virðulegi forseti. Eftir kosningarnar 2007 blésu núverandi stjórnarflokkar í eitthvert mesta bóluhagkerfi sem hagsaga vesturlanda hefur að geyma. Eignaverð hækkaði stórlega, ekki síst íbúðaverð. — Herra forseti, það er dálítill kliður hérna úr hliðarherbergjum, ef fólk gæti hamið sig.

Eignaverð hækkaði stórlega, ekki síst íbúðaverð, og skuldir einstaklinga hækkuðu ár frá ári. Þegar bólan síðan sprakk blasti við gríðarlegur skuldavandi. Síðasta ríkisstjórn lagði mesta áherslu á að hjálpa fólki í greiðsluvanda auk almennra aðgerða á borð við hækkaðar vaxtabætur og hina svokölluðu 110%-leið.

Núverandi ríkisstjórn nálgast vandann með öðrum hætti. Ráðast á í almenna leiðréttingu verðtryggðra húsnæðisskulda vegna forsendubrests, sem er annað orð yfir verðbólgubálið sem gengishrun íslensku krónunnar á árinu 2008 skapaði. Frá hruni hefur krafa um leiðréttingu af þessu tagi verið hávær sem eðlilegt er. Vandinn hefur alltaf verið sá gríðarlegi kostnaður sem fylgir leiðréttingu af þessu tagi. Í svari við fyrirspurn minni til skriflegs svars árið 2010 taldi efnahags- og viðskiptaráðherra að kostnaðurinn yrði um 230 milljarðar við 20% niðurfærslu. Þetta var á árinu 2010. Óhugsandi er að ríkissjóður geti staðið undir auknum skuldum af þessari stærðargráðu. Í kosningabaráttunni taldi Framsóknarflokkurinn lítið mál að nálgast þetta fé og jafnvel gott betur. Sumir frambjóðendur flokksins lofuðu jafnvel leiðréttingu strax í sumar.

Í stefnuyfirlýsingu ríkisstjórnarinnar eru tvær leiðir um leiðréttingu boðaðar. Leið A sækir fjármuni til kröfuhafa gömlu bankanna, sem Framsóknarflokkurinn kallaði í sinni kosningabaráttu hrægammasjóði, en í leið B, sem er sótt í smiðju hægri grænna, er talað um sérstakan leiðréttingarsjóð húsnæðisskulda. Skilja má stefnuyfirlýsingu stjórnarflokkanna og þá þingsályktunartillögu sem hér er til umræðu á þann veg að þessar leiðir séu út af fyrir sig jafn góðar til að ná settu markmiði, en ríkisstjórnin vilji einungis fara leið B ef leið A dregst á langinn. Þetta þarf augljóslega að fá nánari umfjöllun í meðferð þingsins.

Í fyrsta lagi má spyrja: Ef leið B, leiðréttingarsjóðurinn frá hægri grænum, er jafn góð leið til að ná settu marki, hvers vegna er stefnan ekki sett á þá leið frá upphafi? Samkvæmt þingsályktunartillögu hæstv. forsætisráðherra á leið B að vera tilbúin í nóvember.

Í öðru lagi má spyrja um tímann sem ríkisstjórnin telur ásættanlegan til að fara leið A. Er ekki augljóst mál að það tekur mun lengri tíma að fara þá leið? Hvað er eðlilegt að bíða lengi eftir samningum við kröfuhafa? Og þá skal tekið fram að það hlýtur að vera hægt að fara leið B og nota síðan fjármunina sem fást í samningum við kröfuhafa, og menn telja sig fullvissa um að geta náð í og hafa margoft lýst því yfir, til þess að greiða síðan inn í leiðréttingarsjóðinn þegar þeir fjármunir fást.

Í kosningabaráttunni töluðu framsóknarmenn um að heimilin í landinu væru í umsátri skulda sem létta þyrfti af þeim. Án þess að ég vilji hvetja til óðagots er mikilvægt að hraða þeim aðgerðum eins og mögulegt er. Löng bið skapar óvissu um kjör fólks og getur haft slæm áhrif á fasteignamarkaðinn og lánamarkaðinn og því miður er áhrifanna nú þegar farið að gæta. Það gerir fólki erfiðara að selja eignir og jafnframt að kaupa. Mér virðist sem hæstv. forsætisráðherra vanmeti þá óvissu sem bið eftir aðgerðum ríkisstjórnarinnar hefur óhjákvæmilega í för með sér.

Það vekur hins vegar athygli að báðar leiðirnar til leiðréttingar voru lítt útfærðar í aðdraganda kosninganna og eru enn þá óljósar. Hæstv. forsætisráðherra hefur ekki enn útskýrt fyrir þjóðinni hvernig flytja má stórfé frá kröfuhöfum til skuldara eða stofna leiðréttingarsjóð íbúðalána án þess að það hafi áhrif á peningamagn í umferð og þar með verðbólgu og endi þá með því að hækka enn frekar verðtryggðu skuldirnar okkar.

Þegar litið er yfir tillögur hæstv. forsætisráðherra mætti ráða að verðtrygging lána sé helsti sökudólgurinn að þeim vanda sem við er að etja. Orsaka vandans er þó að leita víðar. Of mikil skuldsetning, eignabóla og síðar hrun krónunnar eru meginorsakir þess vanda sem við er að etja. Á Bretlandseyjum er engin verðtrygging en þar má ætla að allt að 600 þús. heimili búi við neikvætt eigið fé. Í Bandaríkjunum eru um 25% allra húsnæðislána hærri en verðmæti þeirra fasteigna sem þau hvíla á. Þetta eru sláandi tölur sex árum eftir að húsnæðisblaðran í Bandaríkjunum sprakk.

Einfaldasta og besta leiðin til að losna við verðtrygginguna er að ganga í Evrópusambandið og taka upp evru. Í kjölfarið fylgir stöðugur gjaldmiðill og minni fjármagnskostnaður fyrir heimilin í landinu. Afnám verðtryggingar mun ein og sér ekki vernda heimilin fyrir fjárhagslegum skakkaföllum vegna gengisfellinga og verðbólgu.

Samfylkingin vill vinna að afnámi verðtryggingar. Okkar stefna er sú að besta og ábyrgasta leiðin til að afnema verðtryggingu sé að gera það í samhengi við aðild að ESB og upptöku evru. En stefnubreyting nýrrar ríkisstjórnar um aðildarviðræður við Evrópusambandið veldur því að leið Samfylkingarinnar til afnáms verðtryggingar er augljóslega ekki fær næstu árin og nauðsynlegt er að leita annarra leiða.

Framsóknarflokkurinn lofaði afdráttarlaust fyrir síðustu kosningar að verðtrygging yrði afnumin með öllu. Þessu lofaði Framsóknarflokkurinn með auglýsingum og pósti inn á hvert heimili. Í tillögum hæstv. forsætisráðherra segir, með leyfi forseta, að markmiðið sé „að hvetja lántakendur til að umbreyta lánum sínum í óverðtryggð lán gegn leiðréttingu á höfuðstól“.

Það er því ljóst að staða verðtryggingarinnar á lánamarkaði er í uppnámi og mikilvægt að bregðast við af festu. Þrátt fyrir þessa stöðu er óvíst með öllu hvenær ríkisstjórnin hyggst leggja fram lagafrumvarp um bann við verðtryggingu neytendalána. Gert er ráð fyrir sérstakri nefnd sérfræðinga til að kanna þetta mál og dunda sér við það fram að áramótum.

Þetta er einni nefndinni of mikið, herra forseti, og þetta er of langur tími til undirbúnings. Hvað hefur Framsóknarflokkurinn verið að gera síðustu missirin? Var þetta ekki mikilvægasta kosningamálið hans? Það er ekkert flókið við það að banna verðtryggð neytendalán og ófært með öllu að draga það fram á næsta ár. Slíkt veldur óvissu á fjármálamarkaði og getur haft áhrif á fasteignamarkað. Það er að mínu viti ekki forsvaranlegt að heimila ný verðtryggð lán á sama tíma og leitað er allra leiða til að koma verðtryggðum lánum yfir í óverðtryggð. Því miður hljómar þessi nefndarskipun hæstv. forsætisráðherra sem fyrsta skrefið í leið Framsóknarflokksins til að svíkja eða útvatna sitt stærsta loforð. Það er ekkert erfitt að banna verðtryggingu, það þarf enga nefnd til að vinna að því mánuðum saman. En það er erfitt að halda vaxtastiginu lágu og vissulega tilefni til að skipa nefnd sérfræðinga um það mál.

Það skyldi þó ekki vera, virðulegur forseti, að ótti hæstv. forsætisráðherra við vaxtastigið í landinu sé hin raunverulega ástæða fyrir því að verðtrygging er ekki bönnuð nú þegar. Ef ríkisstjórnin væri í raun áhugasöm að koma til móts við heimilin og eyða óvissu á lánamarkaði mundi hún banna verðtryggingu strax. Það er mjög einfalt að útbúa frumvarp þess efnis og samþykkja strax á sumarþingi ef flokkurinn vill í raun og veru efna þetta kosningaloforð sitt. En af hverju … (Forseti hringir.) Herra forseti. Ég skrái mig þá aftur á mælendaskrá.