142. löggjafarþing — 5. fundur,  13. júní 2013.

aðgerðir vegna skuldavanda heimila á Íslandi.

9. mál
[16:20]
Horfa

Guðbjartur Hannesson (Sf):

Hæstv. forseti. Við ræðum hér tillögu til þingsályktunar um aðgerðir vegna skuldavanda heimila á Íslandi, mál sem við höfum beðið eftir með mikilli eftirvæntingu. Í upphafi langar mig að nota þetta tækifæri til að óska enn og aftur ríkisstjórninni velgengni og velfarnaðar í störfum sínum, en hún var einmitt kosin til þess að vinna að þessum málum sérstaklega og við höfum boðist til og lýst því yfir að við munum reyna að vinna að framgangi þeirra mála eftir því sem við mögulega getum.

Það felur ekki í sér að við ræðum ekki málin, veitum aðhald, setjum fram gagnrýni, spyrjum spurninga og leitum skýringa, m.a. á því sem sagt var í kosningabaráttunni — og ég ætla að játa það hreinskilnislega að ég dáðist að Framsóknarflokknum fyrir það, ég var sjálfur farinn að trúa því rétt fyrir kosningar að Framsóknarflokkurinn hefði útfærðar tillögur. Ég trúði því einlæglega að ég fengi hér á sumarþinginu útfærðar tillögur í skuldamálum heimilanna. En svo koma menn hingað og tala þannig til okkar hinna, sem hér höfum verið undanfarin ár, eins og ekkert hafi verið gert.

Hér hefur ekkert verið gert. Við höfum ekki sinnt þessu máli neitt. Enginn hefur notið aðstoðar. Þetta segir hæstv. forsætisráðherra í upphafi þings, í umræðu um skuldavanda heimilanna, um leið og hann leggur fram þingsályktunartillögu þar sem hann ákveður að setja mál í ákveðinn farveg. Hann býður okkur enn fremur upp á að þetta verði þingsályktunartillaga sem þýðir að umræðutíminn í þinginu er takmarkaður. Það þýðir að ég fæ að tala hér í 10 mínútur og síðan 5 mínútur og þá búið. Þá er aðkomu minni að málinu lokið. Hvergi í þessum tillögum kemur fram að þingið eigi að fara að fjalla um þetta nema þegar inn koma sérstök mál eins og þegar eru komin inn í einhverjum tilfellum, og það er hið besta mál. En hvar er aðkoma okkar að því að vinna þetta plagg þannig að spurningarnar sem fara út svari væntingum okkar og þeirra í samfélaginu, sem eru þrátt fyrir allt 49%, sem kusu ekki þá ríkisstjórn sem hér er.

Þetta hefur valdið mér vonbrigðum og undrun. Það hefur líka valdið vonbrigðum að hlusta á það þegar menn koma hingað og segja: Nú er öllum ljóst að 20% niðurfærsla eftir hrun var fær leið. Ég stóð í því að reyna að finna þá leið verandi í félags- og tryggingamálanefnd á þeim tíma og seinna sem ráðherra. Ég gat aldrei fundið svar við því hvernig við ætluðum að færa niður skuldir Íbúðalánasjóðs, sem eru upp á 700 milljarða, um 20% á sama tíma og við vorum í vandræðum með að reka samfélag okkar og ná endum saman í ríkisbúskapnum. Það svar hef ég ekki enn fengið. Það voru rökin gegn því að sú leið væri farin.

Síðan kemur þessi hugmynd um að nýta peningana frá svokölluðum þrotabúum. Fín hugmynd, kom fram í sameiginlegri nefnd sem var skipuð til að fjalla um afnám gjaldeyrishafta, útfærð af Framsóknarflokknum. Þegar við vorum að bera upp á þá að við vildum fá betri skýringar var sagt: Þetta liggur allt fyrir. Hér liggur fyrir að þessar 10 tillögur skiptast í tvennt samkvæmt því sem sjálf tillagan segir, annars vegar beinar aðgerðir, hins vegar athuganir, að leita leiða, greina leiðir og kanna hvaða möguleikar eru.

Hvernig eru svo þessar 10 tillögur? Megintillagan er höfuðstólslækkun sem allir hafa viljað sjá, a.m.k. eru menn farnir að trúa því að það sé fær leið og muni verða. Hún er í athugunarflokknum, hana á að skoða. Það er meira að segja sett plan B og C. Þá fer maður allt í einu að efast: Bíddu, var þetta ekki meira tilbúið en þetta?

Í því felst ekki gagnrýni á að reyna eigi að fara þessa leið. Það er bara verið að kalla eftir efndunum. Það kann að vera ásættanlegt að þetta komi til eftir að fjárlög hafa verið samþykkt, því að þetta kemur inn sem tillögur til frekari skoðunar í nóvember — þá voru fjárlög í 3. umr. fyrir næsta ár.

Nú ætla ég að vona að það standist, sem sagt var í upphafi, að þetta væri hægt að gera án þess að það kæmi neitt við ríkissjóð, að hægt væri að afla peninganna einhvers staðar annars staðar. Við erum að tala um 200 milljarða, 200 til 300 milljarða, eftir því hvernig við reiknum þetta, eftir því hvort menn trúa þeim tölum sem nefndar hafa verið. Það fer eftir útfærslum líka. Það er heldur ekki útfært hér í smáatriðum.

Á sama tíma fáum við framan í okkur að við höfum verið með óráðsíu þar sem stefnir í að ríkissjóður, upp á 580 milljarða, fari fram úr um 4 til 6 milljarða, innan við eitt prósent. Þá erum við að tala um að standa við skuldbindingar sem við höfum bætt við eins og gjaldfrjálsar tannlækningar, að stíga fyrsta skrefið í því á þessu ári.

Á sama tíma fáum við inn tvö frumvörp sem munu rýra tekjur ríkissjóðs um nokkra milljarða, annars vegar um veiðileyfagjaldið og hins vegar um að afnema hærra gjald á ferðaþjónustuna, fara aftur til fyrra horfs í þeim efnum. Þá afsala menn sér tekjum upp á hálfan milljarð.

Er von að við spyrjum? Hvert eru menn að stefna? Hvað stendur til? Hvað á að fara að gera?

Ég sagði að fyrsta mál ætti að fara í athugun. Mál nr. 2 leiðréttingarsjóður, hann á að fara í athugun. Lyklafrumvarpið á að fara í athugun, en að vísu á að koma fram með frumvarp í september, svo að við gætum sanngirni. Framtíðarskipan húsnæðismála, það á að vinna áfram. Þar er búið að vinna gríðarlega mikla vinnu og verður mjög jákvætt að halda áfram þar. Þar er líka gríðarlega stórt álitamál sem er hlutverk Íbúðalánasjóðs, hvernig við fjármögnum hann til langs tíma. Þar mun koma í umræðuna uppgjör á því eða skýrsla um hvað gerðist með Íbúðalánasjóð. Hvernig stendur á því að hann stendur svona illa eftir þann tíma sem hann hefur verið rekinn og þær ákvarðanir sem teknar voru í kringum 2004 af þeim flokkum sem þá voru í stjórn?

Við erum síðan með punkt nr. 5 sem er flýtimeðferð sem er komin í frumvarpsformi. Þar spyrjum við: Hvernig mun það nýtast því fólki sem er í skuldavanda? Sú spurning er auðvitað þegar komin upp í nefndinni.

Síðan er það verðtryggingin, hvort banna eigi hana eður ei. Það var forvitnilegt að hlusta á forsætisráðherra, en hv. þm. Helgi Hjörvar túlkaði svar forsætisráðherra á þann veg að það væri tvöfalt já, þ.e. að afnema ætti og banna verðtryggingu og fara í beinar niðurfærslur. Forsætisráðherra gat ekki staðfest það. Hann sagði: Þingmaðurinn túlkar þetta svo. Það er gott að menn túlka okkar skoðun. Hann gat ekki sagt afdráttarlaust að þetta væri aðferðin. Er von að við spyrjum, a.m.k. fyrir hönd þeirra 49% sem ekki kusu þessa tvo flokka.

Auðvitað viljum við líka ræða, þegar menn eru að tala um afnám verðtryggingar, hvernig menn ætla að tryggja greiðslubyrðina, að hún verði ekki of há í byrjun. Það kemur fram hér í tillögunum að hægt sé að leysa það með því að taka hluta af greiðslu höfuðstóls og færa aftur fyrir, sem er bara svipuð aðferð og nú er notuð í verðtryggingunni. Þetta er aðferð sem er notuð víða erlendis. Eru menn að tala um það?

Hvenær og hvar eigum við að fá tækifæri til að ræða þetta sem minni hluti í þingsal? Hvenær eigum við að ræða þetta? Við erum ekki með aðila í nefndinni. Tíminn er takmarkaður hér. Hvar er sáttin og samráðið í kringum þetta? Hæstv. forsætisráðherra verður að sætta sig við að við spyrjum svona spurninga. Það er fullt af góðum hugmyndum hérna, fullt af góðum málum. Það er fullt af mikilvægum málum sem þarf að fjalla um. Það er fullt af málum sem við viljum taka þátt í að vinna áfram, afnám stimpilgjalda, bætt upplýsingagjöf.

Það er aðdáunarvert að hér er lögð fram mjög ítarleg og góð tillaga um að Hagstofu Íslands verði gert kleift að afla upplýsinga um skuldir fólks, safna þeim á einn stað. Þetta var gert einu sinni af Seðlabankanum. Síðan varð að henda þeim gögnum, vegna laga um persónuvernd mátti ekki halda þeim. Nú er verið að reyna að búa til lagaumhverfi þar sem þetta er hægt. Ég styð það heils hugar. En á sama tíma er ekki hægt að setja lög um að fá sambærilegar upplýsingar um útgerðarfyrirtæki og skattamál þar til þess að leggja veiðileyfagjaldið á. Hvar er trúverðugleikinn í þessu öllu saman?

Af nógu er að taka í sambandi við þessa umræðu. Ég stend við það, sem ég hef sagt, að við erum hér til að vinna að framgangi þessara mála. Við virðum niðurstöðu kosninga. Við viljum að þessi mál vinnist áfram. En við viljum að unnið sé í þeirri sátt sem talað hefur verið um, að kallað sé eftir þeim hugmyndum og möguleikum sem eru til staðar, að ekki verði reynt að halda þessu frá þinginu með þeim aðferðum (Forseti hringir.) sem hingað til hafa þó verið notaðar. Og við viljum að hægt sé að treysta á að menn svari því sem spurt er um.